Íslenski boltinn

17 ára piltur settur til höfuðs Helga

Hinn 17 ára gamli Eggert Rafn Einarsson mun væntanlega spila í stöðu miðvarðar við hlið Tryggva Bjarnasonar hjá KR gegn Val í VISA-bikarnum í kvöld en þá hefjast 16 liða úrslit keppninnar. Hann verður þannig settur til höfuðs Helga Sigurðssonar, heitasta sóknarmanns landsins um þessar mundir.

Tveir helstu miðverðir KR, Pétur Hafliði Marteinsson og Gunnlaugur Jónsson, eru í leikbanni og því þarf að gera róttækar breytingar á vörninni. Helgi fór illa með KR-inga í viðureign liðanna í deildinni fyrr í sumar og skoraði bæði mörk liðsins í 2-1 sigri. Helgi hefur skorað alls sjö mörk fyrir Val í fyrstu níu leikjum deildarinnar en Eggert segist sjálfur ekki hræðast þá tölfræði.



„Helgi er vissulega mjög lunkinn en þegar út í leikinn er komið er hann eins og hver annar andstæðingur fyrir mér. Ég mun gera allt sem ég get til að stoppa andstæðinginn, sama hvað hann heitir," segir Eggert Rafn, sem fékk eldskírn sína með KR gegn FH í 6. umferð. Síðan þá hefur hann átt fast sæti í stöðu hægri bakvarðar hjá KR. Í fjarveru Péturs og Gunnlaugs verður Eggert líklega færður í stöðu miðvarðar - stöðu sem hann þekkir mjög vel frá fyrri tíð.



„Ég er miðvörður að upplagi og kann mjög vel við þá stöðu. Ég held að ég sé betri miðvörður en ætli bakvörðurinn verði ekki framtíðarstaðan. Ég hef ekki alveg stærðina í mér fyrir miðvörðinn," segir Eggert í léttum tón en bætti við að hann myndi spila hvar sem þjálfarinn vill hafa hann. „Ég reyni bara að gera mitt besta og vona að það skili sér."



Eggert er ekki eini drengjalandsliðsmaðurinn sem verður í sviðsljósinu í kvöld því hinn 16 ára gamli Trausti Sigurbjörnsson mun líklega standa á milli stanganna hjá ÍA gegn Víkingi í kvöld. Trausti varð einn allra yngsti leikmaðurinn til að spila í Landsbankadeildinni í sumar þegar hann kom inn á gegn Keflavík í síðustu viku.



Íslandsmeistarar FH fara í heimsókn til Vestmannaeyja og í Hafnarfirði eigast við Haukar og Fram. Þá tekur Fjarðabyggð á móti Fjölni á Eskifirði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×