Íslenski boltinn

Munum leita réttar okkar ef Guðjón biðst ekki afsökunar

Einar Orri Einarsson fagnar marki Keflvíkinga sem Hallgrímur Jónasson skoraði. Skömmu síðar fékk hann að líta rauða spjaldið.
Einar Orri Einarsson fagnar marki Keflvíkinga sem Hallgrímur Jónasson skoraði. Skömmu síðar fékk hann að líta rauða spjaldið. MYND/Eiríkur

Guðjón Þórðarson, þjálfari ÍA, fullyrti það í Kastljósi Sjónvarpsins í fyrrakvöld að Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur, hafi sent varamann inn á til þess eins að reyna að limlesta Bjarna Guðjónsson, leikmann ÍA.

Einari Orra Einarssyni var skipt inn á í liði Keflavíkur skömmu eftir að Bjarni skoraði síðar mark sitt í leiknum. Markið hefur verið umdeilt, svo vægt sé til orða tekið, en Keflvíkingar vilja meina að Bjarni hafi hagað sér óheiðarlega og óíþróttamannslega.

Einar Orri tæklaði Bjarna illa skömmu eftir að hann kom inn á og fékk fyrir vikið að líta rauða spjaldið.

„Ef Guðjón dregur ekki þessi orð til baka munum við leita réttar okkar. Það er ekkert öðruvísi,“ sagði Einar Helgi Aðalbjörnsson, faðir Einars Orra, í samtali við Fréttablaðið í gær.

„Ég hef sagt Gísla (Gíslasyni, formanni rekstrarstjórnar KÍA) þetta. Guðjón heldur því fram að drengurinn hafi verið sendur inn á völlinn sem einhver hryðjuverkamaður.“

Spurður hvort hann telji að Einar Orri hafi viljandi ætlað að meiða Bjarna segir Einar Helgi að hann hafi spurt son sinn að því sama.

„Hann sagði við mig að ef hann hafi ætlað að gera þetta, hefði hann tæklað löppina sem Bjarni stóð í. Það gerði hann ekki. En þetta var hárréttur dómur og ekki hægt að mótmæla rauða spjaldinu sem Einar Orri fékk.“

Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur sagði svo í samtali við 14-2 í Sjónvarpinu að honum væri flökurt eftir að hafa hlustað á Guðjón í Kastljósinu.

„Þetta er háalvarleg ásökun og efni í meiðyrðamál. Ég krefst þess að Guðjón biðjist afsökunar á þessum ummælum. Hann vegur að mínum heiðri sem knattspyrnuþjálfara og jafnvel sem manneskju. Ég geri ekki svona hluti.“

Um atvikið sagði Guðjón orðrétt í Kastljósi: „Markið er eitt út af fyrir sig. [...] Það er sendur maður inn á til þess eins að limlesta leikmann. Ég fullyrði það.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×