Íslenski boltinn

Stimpingar fyrir framan búningsklefa ÍA

Eins og fram kemur hér að neðan var mikill hiti eftir leik ÍA og Keflavíkur og ásakanir ganga á víxl milli félaganna. Strax eftir leik hljóp Bjarni Guðjónsson í átt til búningsherbergja að beiðni dómara leiksins. Guðmundur Steinarsson leiddi hóp Keflvíkinga sem hljóp sem fætur toguðu á eftir Bjarna. Að því er sjónarvottar tjáðu Fréttablaðinu var ástandið eldfimt á gangi vallarhússins og mátti litlu muna að upp úr syði enda voru nokkrar stimpingar á ganginum.



Bjarni hljóp inn í vallarhúsið en Guðjón Kristjánsson, fyrrum framkvæmdastjóri ÍA, reyndi að aftra Keflvíkingum inngöngu. Hann hægði nógu lengi á þeim til að Bjarni kæmist inn í klefa. Í kjölfarið var skellt í lás og Guðjón tók sér stöðu fyrir framan hurðina og aftraði því að Keflvíkingar næðu að brjóta sér leið áfram að því er sjónarvottar segja. Voru mikil öskur og læti á ganginum og gríðarlegur hiti í mönnum. Keflvíkingar fóru að lokum inn í sinn búningsklefa og þeim líkaði það illa að Gísli Gíslason, formaður rekstrarráðs meistaraflokks ÍA, skyldi koma þar inn skömmu síðar.



„Ég veit ekkert hvað hann var að álpast inn í klefann okkar. Hann var þess utan ölvaður og ég hef mörg vitni að því," sagði Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur. Gísli gagnrýndi Keflvíkinga harkalega í fjölmiðlum í gær og þá sérstaklega Bjarka Guðmundsson, varamarkvörð Keflavíkur. Bjarki er ósáttur við gagnrýni Gísla.



„Hann á ekki að vera að ræða um mál sem hann getur ekki vitnað til um þar sem hann var í því ástandi að hann gat ekki keyrt ökutæki," sagði Bjarki.



Gísli segir Keflvíkinga ekki fara með allan sannleikann. „Þetta er aðeins hálfur sannleikur. Ég fór inn í klefa til þeirra en ölvaður var ég ekki," sagði Gísli, en hvaða erindi átti hann inn í klefa Keflvíkinga í þessu eldfima andrúmslofti? „Ég var nú í því hlutverki að róa menn og reyna að bera klæði á vopnin. Ég ætlaði annars bara að þakka þeim fyrir leikinn og gera tilraun til þess að róa öldurnar en það féll í grýttan jarðveg. Þetta var nú ekki nema svona tíu sekúndna stopp í klefanum," sagði Gísli sem sagði við fótbolti.net í gær að Bjarki hefði lagt hendur á einn leikmann ÍA-liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×