Íslenski boltinn

Guðjón neitaði að gefa Keflavík mark

Bjarna Guðjónssyni er forðað frá leikmönnum Keflavíkur af félögum sínum eftir markið umdeilda í fyrrakvöld.
Bjarna Guðjónssyni er forðað frá leikmönnum Keflavíkur af félögum sínum eftir markið umdeilda í fyrrakvöld. fréttablaðið/eiríkur

Knattspyrnuheimurinn logaði í gær vegna síðara marks Bjarna Guðjónssonar gegn Keflavík í fyrrakvöld. Þegar Keflvíkingar bjuggust við því að Bjarni myndi láta þá fá boltann eftir að leikmaður ÍA fékk aðhlynningu vegna meiðsla hafnaði boltinn í marki Keflavíkur eftir langskot Bjarna.



Sjálfur segir Bjarni að hann hafi aldrei ætlað að skora úr skotinu. Hann vildi losa pressuna og senda boltann aftur fyrir endamörk.



„Ég er fyrsti maðurinn til að viðurkenna að ég ætlaði aldrei að skora. Ef það hefði verið ætlun mín væri líðan mín í dag ekki eins og hún er," sagði Bjarni. „Viðbrögðin mín eftir að ég skora hljóta að sýna og sanna að ég ætlaði ekki að skora."



Keflvíkingar hópuðust að Bjarna eftir atvikið og þurfti að stía mönnum í sundur.



Spurður hvort ekki hefði verið hægt að leiðrétta þetta mark með því að leyfa Keflvíkingum að skora strax í næstu sókn sagði Bjarni að það hefði sennilega verið hægt að gera einmitt það.



„Hins vegar voru viðbrögð Keflvíkinga ekki í lagi. Þeir réðust að mér, ekki bara einn eða tveir heldur allir. Það er ekki þeim að þakka að ég var ekki sleginn niður, heldur vegna þess að ég var dreginn í burtu."



Bjarni sagðist hafa rætt þetta mál við þjálfara ÍA, Guðjón Þórðarson. Sjálfur sagði Guðjón í samtali við Fréttablaðið að viðbrögð Keflvíkinga hefði ekki gefið tilefni til þess að gefa þeim mark á móti.



„Það varð allt vitlaust," sagði Guðjón. „Ef þeir hefðu bakkað frá á þessum tímapunkti og við hefðum getað rætt málin, hefðum við getað leyft þeim að labba í gegn og skora. Sú staða komst hins vegar aldrei á koppinn vegna framkomu Keflvíkinga."



Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflvíkinga, er ekki að kaupa afsakanir feðganna.



„Ég stend við það sem ég sagði í sjónvarpsviðtalinu eftir leik," sagði hann. Þá sagði hann að Bjarni hafi gert þetta með ásetningi og væri honum til skammar.



„Mér finnst einnig að það skuli ekkert hafa verið gert í framhaldinu mjög óheiðarlegt og óíþróttamannslegt."



Hann segir að ásetningur Bjarna hafi verið greinilegur. „Hann var búinn að reyna þetta áður en hitti bara ekki. Það er líka óeðlilegt að sparka boltanum frá miðju og koma honum þannig aftur fyrir endamörk. Það er bara óeðlilegt."



Bjarni sagði aðspurður að hann myndu engu breyta fengi hann tækifæri til þess. „Ekki miðað við hvernig viðbrögð Keflvíkinga voru eftir leikinn. Það viðhorf sem þeir sýndu sérstaklega eftir leikinn finnst mér til háborinnar skammar."



Skilaboð hans til Keflvíkinga voru skýr. „Markið sem ég skoraði átti aldrei að verða mark. Ég biðst afsökunar á því. Sennilega hefði verið hægt að leysa málið öðruvísi. En úr því sem komið var er markið minnsta áhyggjuefnið af því sem gerðist í lok leiksins og eftir hann."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×