Innlent

Forsætisráðherrar funda í Punkaharju

MYND/Valgarður

Forsætisráðherrar Norðurlandanna hittast á sumarfundi sínum í bænum Punkaharju í Finnlandi í byrjun næstu viku. Matti Vanhanen forsætisráðherra Finnlands er gestgjafi á fundinum. Hann mun taka á móti þeim Fredrik Reinfeldt frá Svíþjóð, Jens Stoltenberg frá Noregi, Anders Fogh Rasmussen frá Danmörku og Geir H. Haarde. Þá mun Halldór Ásgrímsson framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar einnig þátt á þriðjudagsmorgun.

Norrænt hnattvæðingarstarf

Í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu segir að forsætisráðherrarnir muni meðal annars ræða áhersluatriði í tengslum við norrænt hnattvæðingarstarf auk annarra verkefna. „Sameiginlegar aðgerðir eiga að efla samkeppnishæfni á Norðurlöndum, sjálfbæra þróun og velferð borgaranna," segir í tilkynningunni. Hugmyndir um samstarf á sviði hnattvæðingar eru rannsóknir og þróun, skapandi iðnaður og nýsköpun ásamt tækni sem notar litla orku og er umhverfisvæn.

Kynna sér timburfleytingar

Önnur málefni sem snerta Norðurlöndin verða einnig til umreæðu, eins og Sameinuðu þjóðrinar, ESB og grannsvæðin, þar á meðal tengslin við Rússland. Á meðan á heimsókninni stendur munu forsætisráðherrarnir meðal annars kynna sér Lusto rannsóknamiðstöðina um skógrækt, heimsækja Olofsborg í Nyslott og kynna sér hvernig timbri er fleytt. Finnar gegna formennsku í Norrænu ráðherranefndinni á þessu ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×