Lífið

Tíndu hátt í hundrað lítra af skít

Hundaeigendur komu saman og tíndu skít á Geirsnefi á sunnudaginn var. Líf og fjör var hjá hópnum þrátt fyrir vont veður.
Hundaeigendur komu saman og tíndu skít á Geirsnefi á sunnudaginn var. Líf og fjör var hjá hópnum þrátt fyrir vont veður. MYND/Valli

„Við höfum gert þetta einu sinni eða tvisvar áður. Aðallega vegna þess að það er illa gengið um á þessum hundasvæðum. Fólk hendir hundunum út úr bílunum en gleymir að tína upp eftir þá,“ segir Stefanía H. Sigurðardóttir, einn af aðstandendum Tryggs, hagsmunasamtaka hundaeigenda. Félagið stóð fyrir skítatínslu á Geirsnefi, á sunnudaginn var, og mættu um tuttugu manns til tínslunnar.

„Með þessu átaki viljum við vekja fólk til meðvitundar um að hundahald í borg er hundahald í borg en ekki í sveit. Það eru líklega sjö til átta þúsund hundar skráðir á landinu og þar af fimm þúsund á höfuðborgarsvæðinu.Menn verða að fara að hugsa dæmið öðruvísi og tína upp eftir sig því hundar eða jafnvel börn geta farið í þetta,“ segir Stefanía.

Að sögn Stefaníu hefur bóluefni gegn lifrarbólgu í hundum vantað í þrjú ár og því eru komnar kynslóðir hunda sem eru ekki varðar fyrir henni. „Það eru árstíðabundnar sveiflur í veikindum hjá hundum og með því að skilja eftir úrganginn eykur fólk á smithættuna,“ segir Stefanía en tekur skýrt fram að lifrarbólga hunda geti ekki smitast í fólk. „Lifrarbólgan sem og aðrir sjúkdómar virðast poppa reglulega upp og hvolpar sem eru að vaxa úr grasi eru sérlega móttækilegir fyrir þeim. Fólk sem er með got er hætt að fara út þar sem aðrir hundar eru vegna smithættunnar,“ segir Stefanía og bætir við. „Það er til dæmis ekki langt síðan að ræktandi missti got vegna parvóvíruss.“

Í skítatínslunni á sunnudag voru tíndir tveir fullir ruslapokar af skít og öðru drasli, hátt í hundrað lítrar. „Glerbrotin og stubbarnir eru hættulegir og geta stíflað meltingarveginn hjá hundunum. Það eiga allir þetta svæði saman og þá verður það líka að fylgja að fólk sé samtaka í að hreinsa svæðið,“ segir Stefanía hundaeigandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.