Lífið

Pálmi læknir reynist bræðrabani mesti

Logi Bergmann lofar Meistaranum á dagskrá aftur næsta vetur.
Logi Bergmann lofar Meistaranum á dagskrá aftur næsta vetur.

„Já, það má segja að Pálmi sé sannkallaður bræðrabani. Hann sló út Gísla og nú Pál Ásgeir Ásgeirsson,“ segir Logi Bergmann Eiðsson Meistarastjóri.

Seinni undanúrslitaleikurinn spilaðist illa hjá Páli Ásgeiri en læknirinn að norðan, Pálmi Óskarsson, hafði vinninginn. Hann mætir því Magnúsi Þorláki Lúðvíkssyni í úrslitaleik 24. maí. Báðir eiga þeir það sameiginlegt að vera fræknir Gettu betur-kappar.

 

pálmi óskarsson Lagði Pál Ásgeir í gær en áður mátti Gísli, bróðir Páls, lúta í gras fyrir Pálma.

„Þó hvor af sinni kynslóðinni. Og gaman að því. Þótt Pálmi sé ekki gamall þá er hann næstum helmingi eldri en Magnús sem er núverandi Gettu betur-meistari og á því möguleika á að verða tvöfaldur spurningameistari,“ segir Logi Bergmann. Hann bendir jafnframt á að yngri bróðir Pálma lagði Magnús í Gettu betur fyrir ári þegar MA sigraði þá keppni.

 

magnús Þorlákur Á þess kost að verða tvöfaldur spurningameistari en hann er núverandi Gettu betur-meistari með MR.

Logi lofar magnaðri úrslitaviðureign: Enda báðir drullu­góðir límheilar eins og þar stendur. Annar þeirra gengur frá leik með fimm milljónir í vasanum og Logi segir algert skilyrði að menn verji því fé í vitleysu. „Eina sem ég vona er að menn fari ekki að hálfvitast til að borga skuldir með þessum peningum.“ Að sögn Loga hefur verið afráðið að halda áfram með Meistarann á dagskrá Stöðvar 2 enda hafi gengið mjög vel, þátturinn fengið afbragðs viðtökur og því stefna menn ótrauðir á að mæta ferskir til leiks strax næsta vetur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.