Lífið

Nýtt nám í MK

Baldur Sæmundsson segir nám í hótelstjórnun, sem MK býður upp á í haust, ná yfir öll þau fjölmörgu atriði sem snerta hótel- og veitingarekstur, allt frá markaðsfræði til barþjónustu.
Baldur Sæmundsson segir nám í hótelstjórnun, sem MK býður upp á í haust, ná yfir öll þau fjölmörgu atriði sem snerta hótel- og veitingarekstur, allt frá markaðsfræði til barþjónustu. MYND/GVA

Í haust verður í Menntaskólanum í Kópavogi boðið upp á hótelstjórnun, nýtt nám á háskólastigi. „Þetta er búið að vera í undirbúningi í ein átta ár eða svo,“ sagði Baldur Sæmundsson, áfangastjóri í MK. Hann segist ekki vita til þess að sambærilegt nám hafi verið í boði hér á landi áður.

Námið er kennt í samstarfi við César Ritz Colleges í Sviss, sem er virtur skóli á þessu sviði. „Íslendingar hafa verið að fara í nám hjá þeim í tuttugu ár,“ sagði Baldur, sem telur um hundrað manns hafa lokið hótelstjórnunarnámi hjá skólanum.

Fyrsta árið verður kennt hér á landi, en seinni tvö árin í Sviss. Að fyrsta árinu loknu hljóta nemendur hins vegar diplóma í greininni. „Hluti af þessu er starfsþjálfun, sem væri jafnvel hægt að taka erlendis,“ útskýrði Baldur. „Við viljum samt að fólk kynnist íslenska bransanum vel,“ bætti hann við. Árið sem kennt verður hér á landi er miðað við íslenskar aðstæður og nemendur búnir undir áframhaldandi nám í Sviss.

„Þau læra til dæmis viðskiptatengda stærðfræði, ensku, matvælagreinar og þjónustu. Þau læra hvernig veitingahúsið virkar, frammi í sal og á bak við tjöldin, á gestamóttöku, markaðssetningu og margt fleira,“ sagði Baldur. Skráning er þegar hafin og umsóknir streyma nú inn til Baldurs. Námið er opið nemendum með stúdentspróf og nemendum sem lokið hafa iðnnámi í matvælagreinum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.