Lífið

Bauð Robbie Williams upp á ís

Sigurður Pétursson bauð Robbie Williams upp á ís án þess að vita hver hann væri. Í staðinn bauð poppstjarnan honum og konu hans á tónleika með sér. Þessi mynd er tekin á tónleikunum.
Sigurður Pétursson bauð Robbie Williams upp á ís án þess að vita hver hann væri. Í staðinn bauð poppstjarnan honum og konu hans á tónleika með sér. Þessi mynd er tekin á tónleikunum.

„Þeir voru bara með sænska peninga og kreditkort sem ekki voru tekin gild þarna. Robbie var svo byrjaður að borða ísinn sinn svo ég ákvað bara að flýta fyrir og bauðst til að borga fyrir þá,“ segir Sigurður Ágúst Pétursson rafmagnsiðnfræðingur. Sigurður lenti í þeim undarlegu aðstæðum fyrir skemmstu að bjóða bresku poppstjörnunni Robbie Williams upp á ís þar sem þeir voru báðir staddir á vídeóleigu í Kaupmannahöfn.

Málavextir voru þeir að Sigurður sat á kaffihúsi og skaust yfir á vídeóleigu í nágrenninu til að kaupa sér sígarettur. Þar voru fyrir fjórir breskir karlmenn sem voru ekki með danska peninga til að greiða fyrir ís sem þeir höfðu keypt sér og bresk kreditkort þeirra voru ekki tekin gild. Í stað þess að bíða eftir að þeir hlypu út í hraðbanka ákvað Sigurður að borga fyrir þá. „Já, hann var eitthvað fljótur á sér að byrja á ísnum. Ég bauðst bara til að borga svo ég kæmist strax aftur á kaffihúsið,“ segir Sigurður sem fattaði ekki í fyrstu hvern hann hafði verið að borga fyrir.

„Það tók mig nú smá tíma að kveikja á því að þetta væri hann, það voru eiginlega tattúin sem komu upp um hann,“ segir Sigurður um kynni sín af Robbie. Eftir að Sigurður kom út úr vídeóleigunni kölluðu mennirnir á hann og buðu honum að setjast inn í bíl sín.



 

Robbie í öllu sínu veldi Þessi ágæti herramaður var ánægður með Sigurð Ágúst og bauð honum og konu hans á tónleika með sér.

„Við röbbuðum aðeins saman og svo bauð hann mér og konunni á tónleika sem hann var að fara að halda nokkrum dögum seinna. Þar vorum við sett í VIP-stúkuna og skemmtum okkur vel,“ segir Sigurður sem segist ekki hafa getað talist til aðdáenda Robbie Williams. Að minnsta kosti ekki þangað til þetta gerðist.

Danskir fjölmiðlar sýndu þessum atburði talsverðan áhuga og fjölluðu um þennan miskunnsama samverja sem kom Robbie til bjargar. Í umfjöllun þeirra kom þó ætíð fram að um danskan karlmann hefði verið að ræða og Sigurður var sáttur við það. „Ég hef engan áhuga á því að trana mér fram svo ég var ekkert að leiðrétta það,“ segir Sigurður sem nú er fluttur heim og hefur komið sér fyrir á Selfossi. Þar rekur hann fyrirtækið Rafhönnun og ráðgjöf, í félagi við annan mann, og unir sér vel.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.