Fótbolti

Hafði ekkert heyrt þar til í gær

Kristján Örn Sigurðsson
Kristján Örn Sigurðsson

Norskir fjölmiðlar birtu í fyrradag fréttir um að danska stórliðið Bröndby og stórt lið frá Tyrklandi hefðu augastað á Kristjáni Erni Sigurðssyni, leikmanni Brann. Fréttablaðið greindi frá þessu í gær.

Sjálfur sagði Kristján Örn að hann hefði ekkert heyrt af meintum áhuga liðanna fyrr en norskur blaðamaður hringdi í hann. „Ég veit ekki hversu mikið var til í þessu. En ég hef ekkert hugsað um það að skipta um lið og er ekki á förum frá Brann eins og er. En það er allt í lagi að það sé fylgst með manni. Menn mega gera það ef þeir vilja."

Hann neitar því þó ekki að tilhugsunin um að reyna sig hjá nýju félagi og í nýju landi sé spennandi.

„Ég átti gott tímabil í fyrra og ef ég næ öðru góðu tímabili í ár er aldrei að vita hvað gerist. Það er nú lítið búið af tímabilinu eins og er en ég á svo sem ágætan séns á að eiga þokkalegt tímabil í ár," sagði Kristján Örn.

Brann varð síðast meistari árið 1963 og hann segir að íbúar Björgvinjar séu orðnir afar óþreyjufullir eftir nýjum titli.

„Það er um ekkert annað rætt þessa dagana. Við erum með sterkt lið og eigum góðan möguleika á titlinum. Deildin er spennandi, það eru 3-4 lið sem eru með sterk lið og breiða leikmannahópa. Svo koma 5-6 lið sem eru góð og gætu vel unnið hvaða lið sem er í deildinni. En það væri frábært að taka þátt í því að vinna titilinn með Brann."

Kristján Örn hefur verið í byrjunarliði Brann í öllum leikjum liðsins í vor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×