Fótbolti

Leikmenn eiga ekki að veðja á eigin leiki

Spáir því að FH muni leggja ÍA í dag. Annað væri reyndar óeðlilegt. Sést hér í baráttunni gegn KR í fyrra.
Spáir því að FH muni leggja ÍA í dag. Annað væri reyndar óeðlilegt. Sést hér í baráttunni gegn KR í fyrra. MYND/Valli

Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, telur ekki eðlilegt að leikmenn í Landsbankadeildinni veðji á eigin leiki og hvað þá á opinberum vettvangi. Á vefsíðunni fótbolti.net hófst í gær nýr liður undir nafninu Tippað á Lengjuna.

Fyrsti þáttakandinn er Davíð Þór Viðarsson, miðjumaður FH. en það eru Íslenskar getraunir sem greiða 3.000 kr. fyrir seðilinn. Davíð getur unnið 155 þúsund krónur ef hann spáir öllum leikjum réttum og myndi féð renna í leikmannasjóð hjá FH.

Davíð Þór tippar á fimm leiki og þar á meðal leik ÍA og FH þar sem hann verður væntanlega sjálfur að spila. Hann spáir sigri FH-inga.

„Leikmenn og dómarar eiga ekki að standa í veðmálum á eigin leiki. Þetta kannski endurspeglar þann sakleysislega stimpil sem er á íslenskri knattspyrnu og ég held að þetta hljóti að hafa verið gert í einhverju hugsunarleysi,“ sagði Geir Þorsteinsson í gær en Íslenskar Getraunir eru einn af styrktaraðilum KSÍ og Geir situr í stjórn hjá þeim.

„Ég mun taka upp símann og hringja í félaga mína á Lengjunni. Almennt séð er það þannig að leikmenn og dómarar eiga ekki að veðja á eigin leiki og það verður að vera ljóst. Það er eðlilegasta ástandið þó ég óttist ekki þetta atvik í sjálfu sér en það má ekki gefa fordæmi fyrir slíku,“ sagði Geir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×