Lífið

París kennir blaðafulltrúanum um ófarir sínar

París Hilton var dæmd til 45 daga fangelsisvistar fyrir helgi. Hún kennir blaðafulltrúa sínum um allt klúðrið og hefur rekið hann úr starfi.
París Hilton var dæmd til 45 daga fangelsisvistar fyrir helgi. Hún kennir blaðafulltrúa sínum um allt klúðrið og hefur rekið hann úr starfi. MYND/Getty

Hótelerfinginn París Hilton er afar ósátt við 45 daga fangelsisdóm sem hún fékk fyrir helgi. París var dæmd fyrir að rjúfa skilorð sem hún fékk þegar hún var tekin ölvuð undir stýri. Hilton kennir blaðafulltrúa sínum um fangelsisdóminn og hefur látið hann róa.

„Ég skil ekki hvað gerðist því ég gerði bara það sem mér var sagt. Ég skrifa venjulega undir það sem fólk segir mér að skrifa undir," segir hótelerfinginn París Hilton, sem dæmd var til 45 daga fangelsisvistar á föstudag. París er svo brjáluð yfir dómnum að hún hefur rekið fjölmiðlafulltrúann sinn og kennir honum alfarið um ófarir sínar.

Hin 26 ára París var dæmd til fangelsisvistar eftir að hún var fundin sek um að rjúfa skilorð og keyra án ökuleyfis. París hélt því statt og stöðugt fram fyrir rétti að hún hefði aldrei sest upp í bifreiðina ef hún hefði vitað að ökuleyfi hennar hefði verið afturkallað.

 

Fjölmiðlar sýndu réttarhöldunum yfir París Hilton afar mikinn áhuga. Sannkallaður sirkus var þegar hún mætti til dómsuppkvaðningarinnar á föstudag.MYND/Getty

Blaðafulltrúi Parísar, Elliott Mintz, bar vitni fyrir rétti og sagði að hvorki hann né skjólstæðingur sinn hefðu vitað að ökuleyfið hefði verið afturkallað eftir að hún var tekin ölvuð undir stýri í fyrra. Dómarinn var afar ósáttur við framburð Mintz, sagði hann „algjört rugl", þar eð pappírar hefðu fundist í bíl Parísar þar sem fram kæmi að hún hefði verið svipt ökuleyfi.

París kenndi blaðafulltrúa sínum alfarið um þessi mistök, sagði að hann hefði tilkynnt henni að ökuleyfið hefði aðeins verið afturkallað í 30 daga og að henni væri áfram frjálst að keyra til og frá vinnu. Eftir að réttarhöldunum lauk og hún hafði verið dæmd í fangelsi rak París blaðafulltrúann Mintz.

„Ég á þetta ekki skilið," sagði París um helgina. Hún hefur ákveðið að áfrýja dóminum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.