Lífið

Bjartmarsklúbburinn telur bara toppmenn

Er að sögn Erps búinn að rokka með sömu Lionel Richie hárgreiðsluna síðan í Víetnamstríðinu.
Er að sögn Erps búinn að rokka með sömu Lionel Richie hárgreiðsluna síðan í Víetnamstríðinu.

„Sko, það er með allt þetta Idol og ógeð. Í öllu þessu hverfa textarnir einhvern veginn. Verða að sósu og skipta engu máli. svo fyrir tilviljun, heyrir maður gamla Bjartmarsstöffið...” segir Erpur Eyvindarson rappari með meiru.



Erpur er einn talsmanna nýstofnaðra samtaka – Bjartmars-klúbbsins – sem er í raun aðdáendaklúbbur tónlistarmannsins Bjartmars Guðlaugssonar.



Að sögn Erps eru eintómir toppmenn í þessu félagi og nefnir að handahófi Helga Seljan sjónvarpsmann, Andra Frey Viðarsson útvarpsmann, Þröst Heiðar Jónsson bassafant úr Mínus og Gústa Pink.

„Hvað heitir Gústi Pink? Hann heitir bara Gústi Pink. Við höfum það þannig. Síðan er fullt af gaurum úr Mosfellsdalnum. Heil herdeild þar.”

Bjartmarsklúbburinn vill hefja tónlistarmanninn Bjartmar til vegs og virðingar. Helgi Seljan segir Bjartmar hafa staðið á hátindi frægðar sinnar þegar þeir voru að komast til tónlistarlegs þroska.

„Við ólumst upp við þessa tónlist. Svo var Bjartmar bara þurrkaður út úr íslenskri tónlistarsögu. Mjög ómaklega. Okkur finnst hann í það minnsta ekki hafa fengið að njóta sannmælis.”



Klúbburinn er nýstofnaður. Haldnir hafa verið nokkrir undirbúningsfundir og er ýmislegt á prjónunum. Til dæmis er von á Bjartmari á mölina, en hann er búsettur á Eiðum fyrir austan, og mun hann þá afhenda klúbbmeðlimum áritað eintak af plötunni Í fylgd með fullorðnum sem til stendur að endurútgefa.



„Svaðaleg plata. Við í klúbbnum fáum fyrstu eintökin árituð. Það er náttúrlega öfga vel unnið,” segir Erpur og upplýsir að drengur í þeirra röðum hafi hringt í Bjartmar reglulega og tilkynnt honum um hvað sé í deiglunni. Og er Bjartmar að sögn ánægður með þróun mála. Fréttablaðið náði hins vegar ekki í Bjartmar sem mun vera þessa dagana að jafna sig eftir aðgerð en er á góðum batavegi.



„Bjartmar er alvöru “kíp it ríl” gæji. Hann er bara úti í sveit að spila á gítar. Mála og góður á því. Þú veist hvað ég er að meina?” útskýrir rapparinn Erpur. Og heldur áfram:

„Bjartmar er enginn lobbíisti að troða sér í dómnefnd í idol. Honum er fokk sama enda búinn að rokka með sömu Lionel Richie hárgreiðsluna síðan í Víetnam stríðinu. Og ef það er ekki steitment ... Hefur rúllað í gegnum ótal mörg tískutímabil án þess að breyta hárgreiðslunni neitt. Það gerir hann að klassík.”






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.