Lífið

Tyson-kjóllinn falur fyrir rétt verð

Manuela og Karen Lind standa fyrir uppboði til styrktar Forma, og segir Manúela Tyson-kjólinn fræga vera falan fyrir rétta upphæð.
Manuela og Karen Lind standa fyrir uppboði til styrktar Forma, og segir Manúela Tyson-kjólinn fræga vera falan fyrir rétta upphæð. MYND/Hörður
Vinkonurnar Manuela Ósk Harðardóttir, fyrrverandi Ungfrú Ísland, og Karen Lind Tómasdóttir, Ungfrú Suðurnes 2007, standa fyrir uppboði til styrktar Forma, samtökum átröskunarsjúklinga, á bloggsíðu sinni.

„Við erum að bjóða upp okkar persónulegu muni, sem við erum annaðhvort hættar að nota eða höfum hreinlega aldrei notað,“ útskýrði Manuela.

„Okkur langaði að styrkja stelpurnar í Forma en vissum ekki alveg hvernig við ættum að fara að því. Við ákváðum að prófa þetta,“ bætti hún við. Viðtökurnar urðu betri en þær þorðu að vona. „Við erum mjög þakklátar fyrir hvað fólk er viljugt til að taka þátt í þessu,“ sagði Manuela.

Uppboðsmunina má skoða á síðunni 123.is/mankeiko, og segir Manuela von á fleiri munum innan tíðar. 

Hún útilokar ekki að Tyson-kjóllinn svokallaði, sem boxarinn Mike Tyson keypti henni til handa hér um árið, verði boðinn upp. „Ég hef nú ekki hugsað mér að setja hann þarna inn, en ef ég fæ almennilegt boð í hann skal ég alveg láta hann fara, svona til styrktar góðu málefni. En það verður að vera svolítið ríflegt,“ sagði hún sposk.

Að Forma hafi orðið fyrir valinu segir Manuela byggjast á því að þeim Karen finnist nauðsynlegt að efla samtökin. „Við erum meðvitaðar um pressuna sem er á stelpur á okkar aldri, og yngri. Það þekkja líka allir einhvern með átröskun, þetta er miklu algengara en fólk gerir sér grein fyrir,“ sagði hún.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.