Lífið

Hafdís Huld í vodkaauglýsingu

Hafdís Huld hefur leikið töluvert áður, en varla á móti teiknuðum lundum.
Hafdís Huld hefur leikið töluvert áður, en varla á móti teiknuðum lundum. MYND/Hörður

Söngkonan Hafdís Huld Þrastardóttir er í aðalhlutverki í nýjum auglýsingum fyrir Reyka vodka sem sýndar verða í Bandaríkjunum. Hafdís, íklædd lopapeysu, húfu og vettlingum, leikur þar aðallega á móti teiknuðum lundum og fer með ýmsa speki um Ísland og fólkið sem landið byggir - á ensku með sterkum íslenskum hreim.

„Ég vissi ekkert hvernig útkoman yrði. Þetta var bara bluescreen, og svo var allt teiknað eftir á,” sagði Hafdís. Hún hefur leikið töluvert áður, meðal annars í Íslenska draumnum og Villiljósi. „Ég ákvað að mennta mig í tónlistinni, en leiklistin togar alltaf svolítið í mig,“ sagði Hafdís.

Það var ensk módelskrifstofa sem hafði samband við Hafdísi að fyrra bragði og spurði hvort hún hefði áhuga á að leika í auglýsingu.

„Þeim fannst að ég hefði rétta lúkkið í þetta. Þegar ég mætti kom svo í ljós að þeir höfðu verið að prufa á Íslandi áður. Þau vantaði einhvern með íslenskan hreim og voru að leita að ákveðinni stemningu. Ég sagði nokkur orð og mátaði lopapeysu og svo varð þetta ofan á,“ sagði Hafdís.

Karakterinn sem hún leikur hlýtur að teljast nokkuð barnslegur í framkomu. Aðspurð hvort framleiðendum hafi þótt karakterinn týpískur Íslendingur hló Hafdís.

„Ég spurði einmitt að því sjálf,“ sagði hún. Eitthvað á hún þó sameiginlegt með honum, því þegar Fréttablaðið náði tali af henni var hún stödd á tónleikaferðalagi í Suður-Frakklandi. „Ég er með ullarvettlinga og trefil með mér,“ sagði hún og hló. „Ekta Íslendingur - ég ætlaði sko ekki að láta mér verða kalt.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.