Lífið

Úr svörtum fötum í blá

Jónsi í góðum félagsskap við útskriftina í fyrradag.
Jónsi í góðum félagsskap við útskriftina í fyrradag. MYND/Anton

„Þetta fer mér ágætlega, það er mesta furða. Þetta eru þægileg og góð föt," segir Jón Jósep Sæbjörnsson, eða Jónsi í hljómsveitinni Í svörtum fötum, sem mun klæðast fagurbláum flugþjónsfötum í háloftunum í sumar.

Í fyrradag útskrifaðist hann sem flugþjónn hjá Icelandair og fór athöfnin fram á Hótel Nordica. Alls útskrifuðust 74 flugfreyjur og 11 flugþjónar eftir að hafa lagt hart að sér á sex vikna námskeiði.

„Þetta var mjög skemmtilegt námskeið en samt mjög krefjandi og stíft," segir Jónsi og viðurkennir að það hafi verið mun erfiðara en hann bjóst við. Meðal annars þurfti hann að læra mikið um öryggiskröfur flugfarþega, enda mikilvægt að flugþjónar og flugfreyjur kunni góð skil á öllu slíku.

Jónsi, sem mun aðallega ferðast um Evrópu í sumar, fer í sitt jómfrúarflug um loftin blá næstkomandi miðvikudag. Þá verður ferðinni heitið til Stokkhólms. Hann hlakkar mikið til og óttast ekki að farþegarnir eigi eftir að trufla hann eitthvað meira en kollegana í sumar, þrátt fyrir að vera þekkt andlit á Íslandi.

„Ég er búinn að fara í reynsluflug og þau hafa gengið ofboðslega vel. Ég ætla bara að vera flugfélaginu til sóma og þetta er eitthvað sem ég hef ekki miklar áhyggjur af. Ég hlakka virkilega til að vinna með starfsfólki Icelandair því það er alveg frábært fólk."



Jónsi í flugþjónsgallanum sem hann mun klæðast í háloftunum í sumar.

Þrátt fyrir að vera upptekinn í allt sumar í háloftunum ætlar Jónsi að halda áfram að syngja meðfram fluginu, bæði með Í svörtum fötum og einn á báti. „Þetta hefst allt með góðri skipulagningu. Þau eru líka mjög liðleg hjá Icelandair og maður getur skipulagt fram í tímann með þeirra hjálp," segir hann.

Eftir nokkra pásu spilar Í svörtum fötum næst á háskólaballi á Broadway 18. maí en að sögn Jónsa er engin plata væntanleg frá sveitinni á þessu ári, enda fjögurra platna samningi við Senu nýlokið. Næst á dagskrá sé að koma sér upp bunka af lögum áður en teknar verða upp fleiri plötur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.