Lífið

Þorsteinn Joð í veiðiferð til Indlands

Þorsteinn Joð ætlar að renna fyrir indverskan fisk við Maldavi-eyjar.
Þorsteinn Joð ætlar að renna fyrir indverskan fisk við Maldavi-eyjar.

Þorsteinn Joð Vilhjálmsson og Einar Falur Ingólfsson eru á leiðinni í veiðiferð til Maldavi-eyja í Indlandshafi. Þeir leggja af stað í dag en það er Pétur Pétursson, leigutaki í Vatnsdalsánni, sem stendur fyrir ferðinni.

Þegar Fréttablaðið hafði uppi á Þorsteini var hann í óða önn að pakka niður hentugum ferðafatnaði sem fólst meðal annars í sólvörn númer sextíu og Simms-skyrtum tveimur en þær eru þeim kosti búnar að vera sólarvörn um leið. „Þetta eru um ellefu hundruð eyjar og því er spáð að þær fari fyrst á kaf ef spár um loftslagsbreytingar ganga eftir,“ útskýrir Þorsteinn en félagarnir munu annars vegar veiða af báti með kaststöng en hins vegar af hvítum ströndum eyjanna.

„Af bátnum geta komið allt að þrjátíu til fimmtíu punda fiskar og ég sá einu sinni mynd eftir Dúa Landmark um þessa sportveiði. Manni virtist það bara vera á færi manna sem tækju hundrað og tíu í bekkpressu að landa þessum skepnum. Ég verð nú eiginlega að viðurkenna að ég er eiginlega mest spenntur fyrir að veiða af ströndinni því þá getur maður eiginlega átt von á öllu,“ útskýrir Þorsteinn sem er mikill veiðimaður og þykir fátt jafn gott og að veiða á flugu. „Það er eitt af þeim fáu áhugamálum þar sem ég gleymi eiginlega bara vinnunni,“ útskýrir hann.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem þeir félagar leggja í langferð hálfa leið yfir hnöttinn því þeir fóru einnig á Norðurpólinn til að sækja pólfarann Harald Örn Ólafsson á sínum tíma. „Það er alltaf gaman að rannsaka nýjar og framandi slóðir,“ segir Þorsteinn en veiðiferðin til eyjanna stendur yfir í eina viku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.