Lífið

Orðaður við ljósbláa mynd

Stefán Karl er að opna nýtt útibú Regnbogabarna í Kanada enda segir hann mikla eftirspurn eftir hjálp og aðstoð frá krökkum sem hafa lent í einelti.
Stefán Karl er að opna nýtt útibú Regnbogabarna í Kanada enda segir hann mikla eftirspurn eftir hjálp og aðstoð frá krökkum sem hafa lent í einelti.

Stefán Karl Stefánsson var á dögunum orðaður við hlutverk í ljósblárri fullorðinskvikmynd. Hann kannast ekkert við myndina.

Stefán Karl Stefánsson er sem kunnugt er búsettur í Los Angeles og er einn fjölmargra íslenskra leikara sem hefur ferilsskrá á vefsíðunni imdb.com. Þar er hins vegar margt skrifað og sagt sem á sér litla stoð í raunveruleikanum og fyrir skömmu var hann sagður hafa leikið í kvikmynd sem bar þann virðulega titil Berlín.

„Ég kannaðist ekkert við þetta og ákvað að kíkja aðeins betur á málið. Þá kom í ljós að þetta var ljósblá fullorðinskvikmynd og ég þurfti að setja lögfræðiteymi í gang til að leiðrétta þetta í snatri,“ sagði Stefán sem varð þó ekki meint af rangfærslunni þótt eflaust hefði orðið uppi fótur og fit í hinni siðvöndu Ameríku ef fréttist að aðalstjarnan í Latabæ hefði verið orðuð við klám.

Og það er fleira sem vekur undran og forvitni því í sérstöku æviágripi leikarans er hann sagður vera með einleik í smíðum sem á að frumsýna í Los Angeles á þessu ári auk sjónvarpsþáttar. „Ég kannast bara ekkert við þetta enda er lítið fylgst með því sem er sett þarna inn,“ útskýrir Stefán.

Þótt sjónvarpsþáttur og gamanleikur séu fjarri raunveruleikanum situr Stefán ekki auðum höndum heldur eru forvarnarsamtökin Regnbogabörn að færa út kvíarnar og senn kemur að því að útibú verður opnað í Kanada. „Við erum að ráða aukamannskap á Íslandi enda er mikil eftirspurn eftir aðstoð og hjálp frá krökkum sem vita ekkert hvernig þau eiga að takast á við sinn vanda,“ útskýrir Stefán Karl.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.