Lífið

Cowell ríkari en Robbie

Simon Cowell hefur hagnast um fimm milljarða síðasta árið. Auðævi hans eru nú metin á 13 milljarða króna.
Simon Cowell hefur hagnast um fimm milljarða síðasta árið. Auðævi hans eru nú metin á 13 milljarða króna. MYND/Getty

Idol-dómarinn Simon Cowell hefur skotist upp listann yfir ríkustu menn Bretlands síðasta árið. Velgengni hans er slík að hann er orðinn ríkari en söngvarinn Robbie Williams sem lengi hefur verið meðal ríkustu manna í poppbransanum. Auðævi Simons Cowell eru metin á yfir 13 milljarða króna og hafa aukist um yfir fimm milljarða síðasta árið.

Simon Cowell, 46 ára, er nú í hópi 700 ríkustu manna Bretlands og meðal þeirra allra ríkustu í poppbransanum. Þau tíðindi að hann sé ofar á listanum en Robbie Williams eiga ekki eftir að gleðja söngvarann enda hafa þeir oft á tíðum eldað saman grátt silfur. Cowell sagði á dögunum að Robbie þyrfti ekki að vera í eiturlyfjameðferð, hann þyrfti bara að „taka sig taki“.

Robbie, 33 ára, er dottinn niður í sæti 755 yfir ríkustu menn Bretlands. Auðævi hans eru metin á rúma 12 milljarða króna og skýrist fall hans niður listann af dræmum viðtökum sem síðasta plata hans, Rudebox, fékk meðal almennings. Robbie gortaði sig einu sinni af því að vera „ríkari en mig gæti dreymt um“ en í ljósi þess að Cowell er orðinn ríkari en hann eiga þau ummæli ekki lengur við.

Á síðasta ári var Cowell í sæti 944 yfir auðugustu menn í Bretlandi. Gífurleg velgengni hans í Bandaríkjunum með American Idol auk velgengni með sjónvarpsþætti í föðurlandinu hefur aftur á móti flutt hann hratt upp listann.

Eins og undanfarin ár er Bítillinn Sir Paul McCartney ríkasti einstaklingurinn í poppbransanum. Hann situr í sæti 102 yfir ríkustu menn Bretlands og auðævi hans eru metin á um 95 milljarða króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.