Innlent

Óljóst með endurbyggingu

Þórður við Rósenberg. Þórður Pálmason, sem missti mikið af eigum sínum á staðnum Rósenberg í brunanum, sést hér fylgjast með slökkvistarfi.
Þórður við Rósenberg. Þórður Pálmason, sem missti mikið af eigum sínum á staðnum Rósenberg í brunanum, sést hér fylgjast með slökkvistarfi. MYND/Anton

„Það er óljóst á þessu stigi hvort við ráðumst í endurbyggingu,“ sagði Garðar Hannes Friðjónsson, framkvæmdastjóri Fasteignafélagsins Eikar, sem er eigandi Lækjargötu 2 og húsnæðisins þar sem söluturninn Fröken Reykjavík var til húsa, en talið er að eldurinn hafi kviknað.

„Þetta er auðvitað skelfilegt en við þökkum fyrir að enginn hafi slasast í þessum mikla eldi. Það er erfitt að gera sér grein fyrir skaðanum en það er ljóst að hann er mjög mikill sökum elds, reyks og vatns. Þetta er tryggt en það er erfitt að gera sér grein fyrir því að hve miklu leyti. Það væri gott ef við gætum byggt upp húsnæðið í upprunalegri mynd en það er ótímabært að gera sér grein fyrir stöðu mála núna.“

Eik leigði út húsnæði til Rósenberg, Kaffi Óperu, Landsbankans og Iceland visitors, sem leigði út húsnæðið undir söluturninn.

Þórður Pálmason, sem leigir reksturinn á Rósenberg af Eik, var að vonum daufur í dálkinn er hann sat á stéttarkanti við Lækjargötu og horfði á staðinn brenna. „Ég er mjög lítið tryggður og þetta er gríðarlegt tjón fyrir mig. Í raun var þetta allt sem ég átti. Ég var með ýmsa persónulega muni þarna inni sem ég held því miður að séu ónýtir.“

Bjarni Jónsson, sem er í forsvari fyrir félagið Austurstæti 22 hf. sem á og leigir út húsið þar sem skemmtistaðurinn Pravda var en húsið gjöreyðilagðist í brunanum, sagði ótímabært að svara því hvort ráðist verði í endurbyggingu. „Það þarf að byrja á því að meta tjónið og síðan skoðum við okkar mál. Það er auðvitað hræðilegt að horfa upp á þetta gerast. Við erum tryggð en það er ekki ljóst enn þá hvernig þessi mál fara. Það er alltof snemmt að reyna að meta tjónið til fjár.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.