Lífið

Stórafmæli á Seltjarnarnesi

Unglingaflokkur kvenna í handbolta fagnar Íslandsmeistaratitli fyrir nokkrum árum. Grótta rekur þrjár deildir í dag, knattpspyrnu-, handbolta- og fimleikadeild.
Unglingaflokkur kvenna í handbolta fagnar Íslandsmeistaratitli fyrir nokkrum árum. Grótta rekur þrjár deildir í dag, knattpspyrnu-, handbolta- og fimleikadeild.

„Það eru nú að vísu 42 ár síðan ég byrjaði, sagan nær aðeins lengra aftur,“ segir Garðar Guðmundsson, stofnandi Íþróttafélagsins Gróttu á Seltjarnarnesi. 40 ár eru liðin frá stofnun félagsins um þessar mundir og verður afmælinu fagnað með hátíðardagskrá í Íþróttahúsi Seltjarnarness í dag.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan Garðar smalaði saman drengjum á Seltjarnarnesi til að spila fótbolta á kvöldin fyrir rúmum fjörutíu árum. „Ég setti upp auglýsingu í Melabúðinni um að ég ætlaði að stofna félag og það voru 127 strákar sem skráðu sig. Svo var ég bara með þessum strákum úti á túni á hverju einasta kvöldi að spila, frá því að vinnu lauk og fram að miðnætti,“ segir Garðar. „Þetta er auðvitað allt breytt í dag, nú er Grótta stórveldi með fína aðstöðu til íþróttaiðkunar.“

Garðar viðurkennir að árangurinn á knattspyrnuvellinum mætti vera betri en segir félagið bæta það upp á öðrum sviðum. Hann getur þó stært sig af prýðisgóðum árangri með Old boys-flokki félagsins sem hann þjálfar. „Við höfum ekki unnið neina titla en stöndum okkur alltaf vel. Árið í fyrra var okkar besta ár,“ segir Garðar, sem hefur alltaf jafn gaman af því að þjálfa. „Ég sleppi ekki höndunum af þessu. Það er þó orðið svo núna að ég tek bara eitt og eitt ár í einu.“

Hátíðardagskrá í tilefni afmælis Gróttu hefst klukkan 13 í dag með skrúðgöngu frá Sundlaug Seltjarnarness undir stjórn Lúðrasveitar bæjar­félagsins. Eftir það verður dagskrá í íþróttahúsinu þar sem meðal annars verða sýningar frá íþróttadeildum Gróttu. Jónmundur Guðmarsson bæjar­stjóri og Bjarni Álfþórsson, formaður Gróttu, flytja ávörp og Íþróttamaður Gróttu verður heiðraður. Ýmislegt verður í boði fyrir yngri kynslóðina og allir fá kaffi og afmælistertu. Annað kvöld verður síðan hátíðarkvöldverður og diskótek í Félagsheimili Seltjarnarness. Upplýsingar um miðasölu fást á skrifstofu Gróttu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.