Lífið

Tími kryddjurtanna nálgast

Svava Rafnsdóttir hjá Blómavali veit hvaða plöntur á að rækta hvar og er alltaf með ferska piparmyntu í potti á veröndinni.
Svava Rafnsdóttir hjá Blómavali veit hvaða plöntur á að rækta hvar og er alltaf með ferska piparmyntu í potti á veröndinni. MYND/Anton

Nú er mál að fara að huga að matjurtagarðinum, ef einhverrar uppskeru á að vera að vænta í sumar. Svava Rafnsdóttir, garðyrkjufræðingur hjá Blómavali, á ráð undir rifi hverju hvað varðar kryddjurtir.

„Basilíku má sá hvenær sem er. Hana hefur maður bara í eldhúsglugganum, því hún þolir illa að vera úti,“ útskýrði Svava. Í Blómavali má finna ágætis úrval kryddjurtafræja. „Við erum til dæmis með margar tegundir af basilíku. Það er ein venjuleg, önnur nettari, ein rauð, sítrónubasilíka, thai-basilíka og kanilbasilíka,“ sagði Svava.

Aðrar jurtir sem sóma sér vel í glugganum eru rósmarín, timjan, fáfnisgras og óreganó, að sögn Svövu. Úti þrífast hins vegar jurtir á borð við kóríander, steinselju, graslauk, dill, salvíu og piparmyntu.

„Piparmyntan er æðislega flott í potti. Ég er alltaf með hana í stórum potti á veröndinni hjá mér, því hún veður svolítið um garðinn,“ sagði Svava.

Hún segir best að forrækta kryddjurtir inni við. „Svo fer maður með þær út í góðu veðri og inn yfir nóttina svo að þær venjist kuldanum. Það kallast að herða plöntuna.“ Að því loknu ætti jurtin að lifa sumarið af úti á verönd. Frekari leiðbeiningar má oftar en ekki finna á fræpokunum, en annars má leita þeirra hjá starfsfólki Blómavals eða á heimasíðu þess.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.