Lífið

Trúði ekki að ég myndi sigra

Ungfrú Reykjavík 2007 Fanney Lára Guðmundsdóttir var krýnd Ungfrú Reykjavík á fimmtudagskvöld. Hún er að klára stúdentinn frá Verzlunarskóla Íslands en stefnir á viðskiptafræði í bland við ferðamálafræði í framtíðinni.
Ungfrú Reykjavík 2007 Fanney Lára Guðmundsdóttir var krýnd Ungfrú Reykjavík á fimmtudagskvöld. Hún er að klára stúdentinn frá Verzlunarskóla Íslands en stefnir á viðskiptafræði í bland við ferðamálafræði í framtíðinni. MYND/GVA

„Ég er rosalega ánægð og þetta kom mér verulega á óvart,“ segir Fanney Lára Guðmundsdóttir, nýkrýnd fegurðardrottning Reykjavíkur. Fanney er 19 ára Kópavogsmær og er að klára Verzlunarskóla Íslands.

Eftir stúdentinn ætlar hún að taka eins árs pásu frá námi til að ferðast en hún stefnir á viðskiptafræði í framtíðinni í bland við ferðamálafræði. Aðspurð segir Fanney að kvöldið hafi verið afar skemmtilegt en auk þess að hreppa fyrsta sætið var Fanney valin Aquolina-stelpan.

„Þetta var svo skemmtilegt að ég vildi að kvöldið myndi aldrei enda. Þegar búið var að tilkynna annað og þriðja sætið bjóst ég við að heyra eitthvert annað nafn því ég trúði ekki að ég myndi sigra,“ segir Fanney Lára en bætir við að núna stefni hún að sjálfsögðu á fyrsta sætið í stóru keppninni sem verður haldin 25. maí.

Fanney Lára segist ekki hafa þurft að breyta mikið um lífsstíl í undirbúningi sínum fyrir keppnina. „Að vísu þurfti ég að byrja að hreyfa mig meira en ég hafði lítið gert af því áður. Núna veit ég hvað það er gott og ætla hiklaust að halda því áfram.“

Fanney Lára er á föstu með Daníel Frey Daníelssyni sem er námsmaður í Japan. Kærastinn var ekki á landinu þegar keppnin var haldin en hringdi strax í hana eftir krýninguna. „Hann sá úrslitin á netinu og hringdi strax og sagðist óska þess að hafa komið. Ég var í svo miklu spennufalli að ég gat varla talað en hringdi í hann aftur um kvöldið þegar ég var komin heim,“ segir hún hlæjandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.