Innlent

Blikur á lofti í kjaramálum framhaldsskólakennara

MYND/Anton

Stjórn og samninganefnd Félags framhaldsskólakennara hafa sent frá sér ályktun um kjaraþróun félagsmanna KÍ í framhaldsskólum. Þeir segja blikur vera á lofti í kjaramálum sínum enda hafi launaþróun framhaldsskólakennara ekki fylgt eftir launaþróun hefðbundinna

viðmiðunarhópa. Samningsaðilar standi því frammi fyrir verulegu átaki.

„Launaþróun framhaldsskólakennara hefur ekki fylgt eftir launaþróun hefðbundinna viðmiðunarhópa innan BHM frá árinu 2003," segir í ályktuninni. „Tölur frá Kjararannsóknarnefnd opinberra starfsmanna sýna að meðaldagvinnulaun innan BHM og KÍ-framhaldsskóla voru u.þ.b.þau sömu á árinu 2002 en í lok árs 2006 var munurinn rúm 6%, framhaldskólunum í óhag."

Í ályktuninni segir að þetta hafi gerst þrátt fyrir vilja og áætlanir samningsaðila um úrbætur við kjarasamningsgerðina árið 2005. „Framhaldsskólar landsins fá of lítið fé til þess að standa undir lögbundinni þjónustu. Af því leiðir að of oft er gripið til óyndisúrræða sem bitna á námi og kennslu. Um það vitna of stórir námshópar, skertur kennslustundafjöldi í áföngum, of lítið fé til kennslubúnaðar, námsráðgjafar og annarrar stoðþjónustu, lítið svigrúm til þróunarstarfs og fábreytt námsframboð."

Loks er vikið að því að blikur séu á lofti í kjaramálum framhaldsskólanna. „Ef fram fer sem horfir stefnir í ógöngur við næstu kjarasamningagerð." Kjarasamningar renna út í apríl 2008 og segja kennarar að samningsaðilum beri skylda til þess að nýta vel þann tíma sem til stefnu er. Þeir segja ljóst að í næstu kjarasamningum þurfi verulegt átak til þess að leiðrétta laun kennara í framhaldsskólunum. „Það verður ekki gert án þess að til komi sterkur pólitískur vilji til að styrkja skólana í landinu svo að þeir verði samkeppnishæfir um vel menntað starfsfólk," segir að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×