Erlent

Skipuleggur árásir á Íran

Yfirstjórn Bandaríkjahers í Flórída hefur gert áætlanir um hvernig staðið skuli að loftárásum á Íran, yrði ákvörðun tekin um að ráðast á landið. Bandaríkjastjórn ítrekar þó að engin áform séu uppi að svo stöddu um árásir á Íran.

Fréttastofa breska útvarpsins BBC skýrði frá þessu í gær og vitnar þar til ónafngreindra embættismanna í Bandaríkjunum.

Samkvæmt áætlunum yfirstjórnar hersins er meiningin að loftárásir verði gerðar annars vegar á allar helstu bækistöðvar íranska hersins og hins vegar kjarnorkuver og aðra staði sem tengjast kjarnorkuvinnslu.

Meðal annars gera áætlanirnar ráð fyrir því að notaðar verði neðanjarðarsprengjur, sem grafa sig niður í jörðina áður en þær springa, til þess að eyðileggja kjarnorkuverið í Natanz sem er á 25 metra dýpi.

Í gær rann út sá frestur, sem Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna veitti Írönum til þess að hætta að auðga úran. Íranar urðu ekki við þeim kröfum og mega því búast við hertum efnahagslegum refsiaðgerðum af hálfu Öryggisráðsins.

Írönsk stjórnvöld hafa látið sér fátt finnast um hótanir Vesturlanda. Í vikunni efndu þau til hernaðaræfinga í Íran sem um 60 þúsund hermenn taka þátt í.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×