Innlent

Áhættumeðgönguvernd í óvissu

Barnshafandi kona.
Barnshafandi kona. ´MYND/Getty Images

Ljósmæðrafélag Íslands og Félag hjúkrunarfræðinga hafa þungar áhyggjur af því að ekki sé ljóst hvernig áhættumeðgönguvernd verði háttað, nú þegar þrjár vikur eru í að Miðstöð mæðraverndar verði lögð niður í núverandi mynd.

Konur sem þurfa á sérstakri meðferð og ráðgjöf að halda á meðgöngu út af meðgöngusykursýki eða meðgöngueitrun vita ekki hvert þær eiga að mæta í skoðun eftir þrjár vikur. Ljósmæðurnar sem hafa byggt upp sérþekkingu í störfum sínum síðustu 6 árin vita ekki hvar eða jafnvel hvort þær eiga að mæta í vinnuna eftir þrjár vikur.

Þá verður Miðstöð mæðraverndar flutt af Barónsstígnum þar sem hún hefur verið síðan árið 2000 og í gær var tilkynnt að aðstaða sem byrjað var að byggja upp í Mjódd verður ekki notuð í þessum tilgangi. Í staðinn verður byggð upp ný deild á Landspítala háskólasjúkrahúsi.

Guðlaug Einarsdóttir, formaður Ljósmæðrafélags Íslands, segir þetta til marks um hringlandahátt í heilbrigðiskerfinu að nú eigi að fara að byggja upp þriðju deildina á rúmum fimm árum og ekki sé hægt að ákveða hvort aðstoð við mæður í áhættumeðgöngu verði innan heilsugæslu eða inni á sjúkrahúsum. Þjónustan var veitt inni á Landspítalanum áður en hún var færð til Heilsugæslunnar árið 2000 og nú sé hún aftur á leið inn á sjúkrahúsið.

Guðlaug segir engan draga í efa hæfni eða fagmennsku ljósmæðra á LSH en óvissan sé slæm og nú þurfi að hafa hraðar hendur ef mæður á áhættumeðgöngu eigi ekki að standa uppi úrræðalausar um miðjan nóvember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×