Lífið

Mikill afsláttur fyrir innslag í lífsstílsþáttum

Kostnaðurinn við að gera upp íbúð Ásgeirs Kolbeinssonar hefur verið ansi mikill og ekki verður annað séð en að vel hafi tekist upp.
Kostnaðurinn við að gera upp íbúð Ásgeirs Kolbeinssonar hefur verið ansi mikill og ekki verður annað séð en að vel hafi tekist upp. MYND/Hörður

Eitt athyglisverðasta mál vikunnar er framganga Ásgeirs Kolbeinssonar og Arnars Gauta Sverrissonar í Innlit/útlit. Í allri umræðunni hefur komið í ljós að viðmælendur í lífsstilsþáttum sem þessum stórgræða oft á því að mæta í viðtalið.

"Við ætluðum að ræða það eftir birtinguna," segir Ásgeir Kolbeinsson, spurður um hversu mikinn afslátt hann hafi fengið hjá byggingavöruversluninni Byko vegna innslags sem birtist í lífstílsþættinum Innlit/Útlit og vakið hefur mikla athygli. Ásgeir lýsti því yfir í Fréttablaðinu í gær að hann "skiti ekki peningum" en þær breytingar sem hann gerði á íbúðinni hafa væntanlega kostað sinn skilding; nýtt parkett og uppgert bað auk annarra hluta.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins getur svona innslag í þáttum á borð við Innlit/Útlit og Veggfóðri verið ansi mikils virði og getur afslátturinn numið allt að þrjátíu prósentum en það fer þó allt eftir því hversu frægur einstaklingurinn er. Ásgeir bætti því jafnframt við að hann hefði keypt allt sem hægt var að kaupa í Byko og um töluvert háa fjárhæð hefði verið að ræða, hann hefði því jafnframt fengið magnafslátt eins og venja væri til.

Fréttablaðið hefur heimildir fyrir því þáttastjórnandi í einum lífstílsþáttanna hefði fyrir ekki margt löngu reynt að kría út parkett frítt fyrir þekkt hjón í borginni sem þá var að gera upp hús gegn því að þau birtust í þætti sínum en eigandi fyrirtækisins hafnaði því með öllu og fannst það fyrir neðan allar hellur. Ásgeir sagðist jafnframt vera svekktur með það hvernig umræðan hefði þróast, væri komin útí eitthvert skítkast á sína persónu og smekk.

Innlit/Útlit hlaut á fimmtudaginn tilefningu til Eddu-verðlaunanna sem sjónvarpsþáttur árins og Magnús Ragnarsson, sjónvarpsstjóri Skjás eins, hafnaði því með öllu að einhverjar mannabreytingar yrðu gerðar. "Aldrei, aldrei, heldurðu að ég fari að reka manninn?" Sagði Magnús en Þórunn Högnadóttir, ritstjóri þáttarins, lýsti því yfir í Fréttablaðinu að eitthvað þyrfti að gera vegna mikilla viðbragða. "Þetta var svona drengjahúmor. Missti marks. En Arnar Gauti er prýðispiltur. Skopskynið hitti ekki í mark hjá kjarna áhorfenda Skjás eins. Það þarf ekkert að gera annað en íhuga hvort rétt sé að hleypa svona piltahúmor inn í þáttinn en engra aðgerða er þörf," sagði Magnús.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.