Innlent

Áætlanir sagðar hafa staðist

Frá Miðnesheiði Flutningar varnarliðsmanna ganga samkvæmt áætlun. Samdráttur í þjónustu verður mikill á næstunni og þar á meðal verður verslunum lokað.
Frá Miðnesheiði Flutningar varnarliðsmanna ganga samkvæmt áætlun. Samdráttur í þjónustu verður mikill á næstunni og þar á meðal verður verslunum lokað. MYND/heiða

Samdráttur í þjónustu og lokun þjónustustofnana Varnarliðsins á Miðnesheiði gengur samkvæmt áætlun, að sögn Friðþórs Eydal, upplýsingafulltrúa Varnarliðsins. Lokanir stofnana hófust í byrjun maí og hefur meðal annars háskólaútibúi, sérverslunum og miðbylgjuútvarpi verið lokað.

Skólalok voru hinn 9. júní síðastliðinn og flutningur fjölskyldna er því að hefjast fyrir alvöru. "Nú er byrjað að ganga frá búslóðum varnarliðsmanna og fjölskyldna þeirra. Stærsti hlutinn af þessum flutningum verður í júní og júlí," segir Friðþór. Í byrjun janúar voru 2.840 manns á Miðnesheiði en um 500 þeirra voru farin um síðustu mánaðamót. Friðþór segir að varnarliðsmönnum fari nú hratt fækkandi og 1.000 af þeim 2.200 varnarliðsmönnum sem hér eru í dag verði horfnir af landi brott eftir mánuð.

Frá og með næstu mánaðamótum verður samdráttur í þjónustu tekinn í stórum skrefum. Aðalverslun ásamt fleiri smærri verslunum verður lokað 30. júní og þá verður einnig lokað fyrir langlínusímtöl í einkasíma. Fimmtán dögum seinna verður leikskóla, ferðaskrifstofu og tómstundaheimili lokað auk þess að lokað verður fyrir útsendingar FM-útvarps.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×