Innlent

Laun kvenna lægri í öllum atvinnugreinum

MYND/Stöð 2 - NFS

Árslaun á Íslandi eru há samanborið við önnur Evrópulönd. Þetta kemur fram í alþjóðlegum samanburði á launum sem gerður var undir forystu Evrópsku hagstofunnar. Þegar tillit er tekið til verðlags færist Ísland hins vegar nokkuð neðar á listann. Árslaun karla eru hærri en árslaun kvenna í öllum þeim atvinnugreinum sem kannaðar voru.

Niðurstöður könnunarinnar voru birtar á dögunum í Hagtíðindum Hagstofu Íslands. Könnunin, þar sem árið 2002 var lagt til grundvallar en unnið hefur verið úr upplýsingunum síðustu misseri, náði til allra ríkja Evrópusambandsins, nema Möltu, auk Íslands Noregs, Rúmeníu og Búlgaríu. Þær atvinnugreinar sem skoðaðar voru eru iðnaður, byggingastarfsemi og mannvirkjagerð og verslunar- og viðgerðarþjónusta.

Árslaun hér á landi eru hærri en meðaltal ESB-ríkjanna í öllum þessum atvinnugreinum. Munurinn er mestur í byggingarstarfsemi þar sem árslaun á Íslandi eru sextíu og þremur prósentum yfir meðallaunum, eða þau þriðju hæstu í Evrópu. Noregur og Danmörk eru þar jöfn í fyrsta til öðru sæti en launin þar eru sex prósentum hærri en hér á landi.

Meðalárslaun innan iðnaðarins eru rúmum tuttugu prósentum hærri á Íslandi en í ríkjum ESB, sem dugar okkur reyndar aðeins í áttunda sæti yfir heildina. Hæstu launin eru eins og áður í Noregi og Danmörku en Bretland kemure þar á eftir.

Þegar litið er til verslunar og viðgerðaþjónustu kemur í ljós að Ísland er þrjátíu og sjö prósentum yfir meðaltalinu, sem þýðir að árslaunin í þeim geira eru þau þriðju hæstu í þeim löndum sem þátt tóku í könnuninni. Og sem fyrr eru hæstu launin í Noregi og Danmörku.

Þau lönd sem skipa neðstu sætin í öllum atvinnugreinum eru Búlgaría, Rúmenía, Lettland og Litháen.

Þá sýna niðurstöður könnunarinnar að árslaun karla eru hærri en kvenna í öllum atvinnugreinum samanburðarlandanna. Hér á landi eru árslaun kvenna í iðnaði sjötíu prósent af árslaunum karla, rétt rúm áttatíu prósent í byggingarstarfsemi og í verslun og viðgerðaþjónustu eru konur með sjötíu og fjögur prósent af þeim launum sem karlar fá.

Könnunin náði til tæplega átta milljón starfsmanna fyrirtækja á almennum vinnumarkaði með tíu starfsmenn eða fleiri. Ráðgert er að gera sambærilega könnun á fjögurra ára fresti.

Sjá má niðurstöður könnunarinnar í heild hér.

 

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×