Innlent

Stjórnarandstaðan sameinast um mál

Stjórnarandstaðan sameinast um mál Þingflokkar Samfylkingarinnar, Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs (VG) og Frjálslynda flokksins kynna í dag sameiginlegar áherslur sínar í upphafi þingvetrar og undirstrika með táknrænum hætti samstöðu sína gegn núverandi ríkisstjórn.

Stjórnarandstaðan mun á þessu þingi flytja nokkur sameiginleg grundvallarmál auk þess að standa sameiginlega að kosningum í nefndir og ráð á vegum þingsins. Þingflokkarnir munu leggja fram sameiginleg þingmál og voru þrjú þeirra kynnt sérstaklega á sameiginlegum blaðamannafund þingflokkanna í Alþingishúsinu í dag.

Í fyrsta lagi munu þingflokkarnir leggja fram sameiginlega tillögu til þingsályktunar um nýja framtíðarskipan lífeyrismála, sem hefur það að markmiði að bæta kjör aldraðra og öryrkja með markvissum aðgerðum.

Í öðru lagi munu fulltrúar þingflokkanna í umhverfisnefnd þingsins leggja fram sameiginlega tillögu til þingsályktunar um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum, stærsta og gróðursælasta votlendi á hálendi Íslands.

Í þriðja lagi munu þingmenn flokkanna flytja frumvarp um breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Frumvarpið miðar að því að vinna gegn launaleynd, kynbundnum launamun og öðru misrétti kynjanna.

Formenn þingflokkanna munu sameiginlega leggja fram tillögu varðandi stríðið í Írak og einnig verður á næstunni kynnt sameiginleg tillaga er snýr að raforkuverði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×