Erlent

Jafnvel margbrotinn samningur er dýrmætur

Hermenn stjórnarhersins á Srí Lanka.
Hermenn stjórnarhersins á Srí Lanka. MYND/AP

Vopnahléssamningurinn á Srí Lanka er enn mikils virði, jafnvel þótt báðir aðilar brjóti ítrekað gegn honum. Upplýsingafulltrúi norræna eftirlitsins telur jafnframt að ótryggt ástand hafi ekki áhrif á fyrirhugaða fjölgun í liði Íslendinga, nema að ástandið versni enn.

Þorfinnur Ómarsson, upplýsingafulltrúi norræna friðargæsluliðsins á Srí Lanka, segir flutninga norrænna friðargæsluliða til höfuðborgarinnar Colombo sýna að öryggi friðargæsluliða á svæðinu sé tryggt eins vel og kostur sé. Stjórn norræna friðargæsluliðsins hafi náð að flytja friðargæsluliða burt frá þeim svæðum sem loga nú í illdeilum. Þorfinnur segir þá Íslendinga sem eru á Srí Lanka aldrei hafa verið í hættu. Hann segir að ákvörðun Íslendinga um að fjölga í friðargæsluliðinu verði endurskoðuð ef enn versnar í landinu en eins og málin standi nú standi Íslendingar við ákvörðun sína.

Þorfinnur segir vopnahléssamninginn milli stjórnarhersins og Tamíltígranna enn mjög dýrmætan þrátt fyrir að hann sé ítrekað brotinn á báða bóga, helst í norðurhluta landsins og á austurströndinni. Svo lengi sem hvorugur aðilinn segir upp samningnum sé hann í gildi, jafnvel þó hann sé ekki virtur að fullu eins og er. Ef annar aðilinn ákvæði hins vegar að slíta vopnahléssamningnum þyrfti að byrja alla friðarsamningavinnu algjörlega upp á nýtt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×