Innlent

Sammála Geir um að ekki verði reistar virkjanir eins og að Káranjúkum

MYND/Stöð 2

Hefðbundinn ríkisráðsfundur var á Bessastöðum nú fyrir hádegi. Formaður Framsóknarflokksins er sammála þeim orðum forsætisráðherra að ekki verði reistar framar virkjanir á Íslandi á stærð við Kárahnjúkavirkjun.

Ráðherrar komu á Bessastaði um klukkan hálfellefu á þennan formfasta og hefðbundna ríkisráðsfund sem ávallt er haldinn á gamlársdag. Á fundinum eru bornar undir forseta til staðfestingar, eða öllu heldur endurstaðfestingar, ákvarðanir sem teknar hafa verið af ráðherrum eða Alþingi. Formlega koma þessar ákvarðanir ekki til framkvæmda fyrr en með staðfestingu forseta.

Ráðherrar voru fáorðir þegar þeir komu á fundinn. Þó var Jón Sigurðsson spurður út í þau orð Geirs Haarde forsætisráðherra að ekki yrðu fleiri virkjanir á stærð við Kárahnjúkavirkjun á Íslandi.

„Mér finnst þetta mjög eðlilegt viðbragð, mjög í samræmi við það sem ég hef verið að segja að undanförnu og þá erum við að tala um stærðir eins og eru fyrir austan," sagði Jón.

Ríkisráðsfundurinn sjálfur hófst um klukkan hálfellefu og búist var við því að honum myndi ljúka nú laust fyrir klukkan tólf. Hefð er fyrir því að forseti Íslands bjóði ríkisstjórninni uppá kampavínsglas að loknum fundi og skálað sé fyrir nýju ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×