Innlent

Iðnskólarnir eignast kortaútgáfu Landmælinga

Magnús Guðmundsson forstjóri Landmælinga Íslands með eitt kortanna sem Iðnmennt kaupir.
Magnús Guðmundsson forstjóri Landmælinga Íslands með eitt kortanna sem Iðnmennt kaupir. MYND/Skessuhorn

Iðnskólar landsins eignast að líkindum landakortaútgáfu Landmælinga Íslands þegar ný lög um Landmælingar Íslands taka gildi um áramótin og stofnunin hættir útgáfu og sölu landakorta.

Iðnmennt ses. átti hæsta tilboðið í landakortaútgáfuna, sem Ríkiskaup auglýsti til sölu fyrir skömmu. Gengið verður frá samningum um söluna á næstu dögum. Skessuhorn - Vesturlandsvefurinn sagði frá þessu í gær, en Landmælingar Íslands eru staðsettar á Akranesi. Iðnmennt kaupir væntanlega lager stofnunarinnar af prentuðum kortum og geisladiskum auk nokkurra útgáfugrunna vinsælla ferðakorta fyrir tæpar 30 milljónir króna.

Alls bárust tilboð frá sex aðilum. Iðnmennt ses. bauð í alla grunnana saman tæpar 29,9 milljónir króna og átti að auki hæsta tilboð í fjóra af fimm flokkum útboðsins. Að sögn Magnúsar G. Sigurgeirssonar verkefnisstjóra hjá Ríkiskaupum hefur tilboði Iðnmenntar verið tekið og liggur samningur um kaupin fyrir sem væntanlega verður gengið frá á næstu dögum. Aðrir aðilar sem buðu í einstaka þætti voru Steingrímur Benediktsson, Loftmyndir ehf, Edda útgáfa hf., Hrafnkell Á. Proppé og Sigríður Skúladóttir.

Iðnmennt ses. var stofnuð árið 1999 úr Sambandi iðnmenntaskóla og IÐNÚ bókaútgáfu sem höfðu þá starfað í 50 ár. Stofnendur Iðnmenntar, sem er sjálfseignarstofnun, voru fimmtán aðildarskólar Sambands iðnmenntaskóla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×