Innlent

Sýknaður af því að reyna að hindra varp arna

Bóndi við Breiðafjörð, sem gefið var að sök að hafa sett upp gasbyssu til þess að fæla erni frá hreiðurstæði í firðinum og koma þannig í veg fyrir að þeir verptu þar, var í dag sýknaður í Héraðsdómi Vestfjarða af broti á lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum.

Bóndinn játaði að hafa sett upp byssuna í hólmanum en sagði tilganginn þann að fæla burt svartbak og flökkuerni úr varplandi í hólmum í kring en ekki að koma í veg fyrir að ernir verptu þar.

Byssur líkt og sú sem sett var upp í hólmanum er hægt að stilla þannig að frá þeim kemur hljóð sem minnir á byssuskot og með þeim er hægt að fæla fugla frá.

Bóndinn sem um ræðir stundaði dúntekju í Breiðafirði. Bóndinn sagði þeim æðakollum sem verptu á svæðinu hafa fækkað mikið á rúmum áratug. Bóndinn taldi að viðvera arna á svæðinu ætti stóran þátt í þessari niðursveiflu. Hann kvaðst þess fullviss að örn hefði aldrei verpt í hólmanum.

Þar greindi hann á við sérfræðing hjá Náttúrufræðistofnun Íslands sem kærði bóndann til lögreglunnar fyrir að setja upp byssuna. Sérfræðingurinn taldi ljóst að tilgangurinn væri sá að fæla erni frá hreiðurstæði í hólmanum og hindra þá í að verpa þar. Slíkt er brot á lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum. Sérfræðingurinn hefur séð um talningu arna við Ísland í um tuttugu ár. Sérfræðingurinn var viss um að ernir hefðu byggt upp hreiður í hólmanum vorið 2005. Þegar farið var í eftirlitsflug yfir svæðið skömmu síðar hafi enginn örn verið sjáanlegur í hólmanum og ljóst að tekist hafði að fæla ernina burt með gasbyssunni.

Dómurinn taldi ekki full sannað að ernir hefðu verpt í hólmanum og því var bóndinn sýknaður af brotinu í Héraðsdómi Vestfjarða í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×