Innlent

Fær bara aðgang að hlerunargögnum um sjálfan sig

Þjóðskjalasafnið veitti nú síðdegis Kjartani Ólafssyni, sagnfræðingi og fyrrverandi alþingismanni, leyfi til að skoða gögn sem varða hleranir á honum sjálfum. Kjartan er ekki sáttur við úrskurðinn og vill fá sama aðgang að gögnum og Guðni Jóhannesson sagnfræðingur fékk og ætlar með málið til dómsstóla, ef menntamálaráðherra skikkar ekki þjóðskjalasafnið til að breyta úrskurði sínum.

Í úrskurði Þjóðskjalasafnsins segir að við leit í gögnum safnsins hafi ekki fundist gögn þar sem nafn Kjartans kemur fyrir. Hins vegar hafi hann verið framkvæmdastjóri samtaka sem sími hafi verið hleraður hjá, og því fái hann aðgang að gögnum um hleranir á símum Sósíalsistaflokksins og Samtaka hernámsandstæðinga.

Kjartan segir þetta ekki í samhengi við beiðni sína. Hann hafi aldrei óskað sérstaklega eftir gögnum sem varða hann sjálfan persónulega. Hann sem sagnfræðingur hafi krafist að fá aðgang að öllum þeim sömu gögnum og Guðni Jóhannesson sagnfæðingur fékk á sínum tíma. Kjartan segir hins vegar að í úrskurði Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra, hafi ráðherrann rætt um rétt Kjartans til að sjá gögn um sjálfan sig. Ráðherrann hafi einnig sagt í úrskurði sínum að gæta ætti jafnræðisreglu. Kjartan segist ekki telja jafnræðisregluna virta með því að þrengja aðgang sinn að gögnum um hleranir eins og gert sé nú í úrskurði Þjóðskjalasafnsins.

Gögnin sem Kjartan fær aðgang að varðar hleranir á símum Sósíalistaflokksins og Samtaka hernámsandstæðinga á árunum 1961, 1963 og 1968, þegar Kjartan var framkvæmdastjóri þeirra samtaka. Hann segist ætla að reyna eina ferðina enn að fá menntamálaráðherra til að viðurkenna rétt sinn til að fá sama aðgang að gögnunum og Guðni. Að öðrum kosti fari hann með málið fyrir dómsstóla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×