Erlent

Carl Bildt verður utanríkisráðherra Svíþjóðar

Carl Bildt verður utanríkisráðherra
Carl Bildt verður utanríkisráðherra

Fredrik Reinfeldt, nýr forsætisráðherra Svíþjóðar, kynnti ríkisstjórn sína í morgun. Athygli vekur að Carl Bildt, fyrrverandi forsætisráðherra, verður utanríkisráðherra. Í ræðu á sænska þinginu sagði Reinfeldt að staðið yrði við gefin loforð um skattalækkanir og breytingar á velferðarkerfinu.

Þingið samþykkti skipan Reinfeldts í embætti forsætisráðherra í gær með hundrað sjötíu og fimm atkvæðum gegn hundrað níutíu og sex. Bandalag fjögurra mið- og hægriflokka, undir forystu Reinfeldst, formanns Hægriflokksins, vann sigur í þingkosningum í síðasta mánuði. Reinfeldt, sem er fjörutíu og eins árs, er yngsti forsætisráðherra Svía síðan 1926. Hann sagði það undarlegt að hafa náð þessu takmarki og tekið við. Þetta væri mikill heiður en um leið fylgdi mikil ábyrgð. Reinfeldt tekur við af Göran Persson, leiðtoga Jafnarmanna, en flokkur hans galt afhroð í kosningunum. Persson hefur gent embættinu í áratug. Hann óskaði Reinfeldt til hamingju með nýja starfið og óskaði honum velfarnaðar.

Það var svo í morgun sem nýji forsætisráðherrann kynnti nýja ríkisstjórn. Ráðherrar eru tuttugu og tveir, þar af tíu konur. Mesta athygli vekur að Carl Bildt, fyrrverandi leiðtogi Hægriflokksins og forsætisráðherra á árunum 1991 til 1994, verður utanríkisráðherra. Lars Leijonborg, leiðtogi Þjóðarflokksins, verður menntamálaráðherra, Maud Olofsson, leiðtogi Miðjuflokksins, verður atvinnumálaráðherra, og Göran Häggelund, leiðtogi Kristilegra demókrata, verður félagsmálaráðherra.

Í ræðu sinni á þingi í morgun sagði Reinfeldt að borgaralegu flokkarnir hefðu fengið umboð frá kjósendum til að breyta Svíþjóð. Hann sagði að staðið yrði við gefin loforð um skattalækkanir og niðurskurð í velferðarkerfinu. Stefnt verði að því að skila tekjuafgangi í fjárlögum.

Carl Bildt er flokksbróðir Reinfeldts í Moderatarna. Formaður Kristilega demókrataflokksins, Göran Hägglund, verður félagsmálaráðherra og Lars Leijonborg formaður Þjóðarflokksins, er menntamálaráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×