Erlent

Nyhedsavisen: Upplagið aðeins hálft

Aðeins helmingur eintaka nýja danska fréttablaðsins Nyhedsavisens, kom út í morgun vegna bilunar í prentsmiðju. Á fyrsta útgáfudegi fær blaðið ágæta dóma fjölmiðlasérfræðinga, þótt þeir telji blaðið ekki byltingakennt. Aðrir fjölmiðlar hafa fjallað um myndbirtingu blaðsins á skopmynd af Múhameð spámanni.

Prentun blaðsins gekk þó áfallalaust fyrir sig bæði í Árósum og Óðinsvéum. Í Kaupmannahöfn hinsvegar varð bilun í prentvél þess valdandi að ekki var hægt að prenta 250.000 eintök sem er um helmingur af heildarupplagi blaðsins.

Nyhedsavisen er í eigu 365 miðla sem einnig reka NFS. Meðganga blaðsins hefur tekið nokkra mánuði, nógu langan tíma fyrir samkeppnisaðila að vera á undan að gefa út tvö ný fríblöð.

Forsíðufyrirsögnin í dag er: „Danski þjóðarflokkurinn niðurlægir Múhameð“. Þar er sagt frá myndbandsupptökum af skopmyndakeppni sem fram fór á þingi ungliða flokksins í ágúst síðastliðnum. Nyhedsavisen birtir eina af myndunum í dag.

Fred Jacobsen, varaformaður danska blaðamannafélagsins, segir að samtali við NFS,

að þessi aðalfrétt blaðsins í dag sé svo sannarlega enn í umræðunni hjá fólki og aðrir fjölmiðlar vitni í þessa frétt í dag. Hann segir að blaðið hafi því farið vel af stað.

Henrik Berggreen, lektor í danska blaðamannaháskólanum, telur Nyhedsavisen ágætis blað, en alls ekki þá miklu byltingu sem lofað hafi verið. Hann segist hissa á því að hinn mikli undirbúningstími hafi ekki verið betur nýttur til að vinna í eigin fréttum og kafa dýpra í mál, sem hefði enn frekar getað gert blaðið einstakt í huga hins almenna Dana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×