Erlent

Færeyingur fær umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs

Bogi Hansen prófessor
Bogi Hansen prófessor MYND/Jens Kr. Vang

Færeyingurinn Bogi Hansen, prófessor og rithöfundur, hlýtur Náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs árið 2006. Verðlaunin eru nema um 4,2 milljónum króna og Hansen fær þau fyrir "afburða framlag til rannsókna á sviði loftslagsbreytinga", segir í tilkynningu.

Þema verðlaunanna í ár var loftslagsbreytingar og aðlögun að loftslagsbreytingum. Rannsóknir Boga Hansen hafa fjallað um áhrif golfstraumsins og annarra hafstrauma á loftslagið.

Í greinargerð dómnefndar segir: Bogi Hansen hlýtur verðlaunin fyrir umfangsmiklar rannsóknir sínar á loftslagi og haffræði á norðurhöfum. Sérstaklega er vísað til rannsókna hans til margra ára á hafstraumum og þeirri hættu sem kann að vera á því að golfstraumurinn, meðal annarra strauma gæti fært sig til. Jafnframt hefur honum tekist að miðla þekkingu á loftslagsbreytingum á skiljanlegan og einfaldan hátt jafnt til almennings, vísindamanna og stjórnmálamanna.

Dómnefndin telur Boga Hansen vera verðugan fulltrúa norræna vísindasamfélagsins, starf hans hefur haft mikla þýðingu í alþjóðlegu samhengi, meðal annars sýndi hann snemma fram á áhrif loftslagsbreytinga á heimsskautssvæðinu. Rannsóknir hans hafa einnig sýnt fram á að hlýnun jarðar hefur áhrif á vistkerfið við Færeyjar og þar með einnig á efnahag Færeyja. Bogi Hansen hefur tekið þátt í fjölda norrænna og alþjóðlegra rannsóknaverkefna og er nú formaður Vestnorræna verkefnisins á sviði haf- og loftslagsmála, en verkefnið hefur haft áhrif á loftslags og fiskirannsóknir. Vísindastarf hans hefur verið umfangsmikið og margar greina hans hafa birst í Nature and Science. Hann er meðhöfundur fjölda vísindabóka og einnig bóka fyrir almenning um efnið, meðal annars fékk hann færeysku bókmenntaverðlaunin árið 2001 fyrir bók sína Hafið.

Verðlaunin verða veitt í tengslum við þing Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn, miðvikudaginn 1. nóvember 2006.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×