Innlent

Kúabændur gagnrýna hugmyndir um lækkun matvælaverðs

MYND/Vísir

Landssamband kúabænda gagnrýnir harðlega hugmyndir Samfylkingarinnar um aðgerðir til að lækka matvælaverð. Í yfirlýsingu sem samtökin hafa sent frá sér er bent á afleiðingar þess ef stefnunni verði hrint í framkvæmd.

Samfylkingin ætlar að leggja fram þingsályktunartillögu á haustþingi til lækkunar matarverðs. Í henni fellst afnám vörugjalds og tolla í áföngum auk lækkunar matarskatts. Segja þingmenn Samfylkingarinnar ekki hægt að líða það lengur að vöruverð hér á landi sé fimmtíu prósentum hærra en í nágrannlöndunum.

Þórólfur Sveinsson, formaður Landssambands kúabænda, segir í tilkynningu frá samtökunum að ekki sé hægt að bera saman aðstæður annarra þjóða og Íslendinga. Hann gagnrýnir orð Önnu Kristínar Gunnarsdóttur, þingkonu Samfylkingarinnar, sem segir Íslendinga geta litið til góðrar reynslu Nýsjálendinga af því að fella niður stuðning við landbúnað. Þórólfur segir afkastagetu jarðarinnar og loftslag hafa mikið að segja um hvað sé ræktað og hver framleiðslugetan sé. Því sé ekki hægt að leggja að jöfnu aðstæður til landbúnaðar á Íslandi og á Nýja-Sjálandi. Þórólfur segir þessi orð Önnu Kristínar sýna ótakmarkað hugmyndaflug. Hann bendir á að um tíu þúsund manns starfi við landbúnað í kjördæmi Önnu Katrínar, Norðvesturkjördæmi, og að hugmyndir Samfylkingarinnar hafi gríðarleg áhrif á þennan hóp.

Þórólfur bendir jafnframt á að samningar um landbúnaðarmál á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, WTO, hafi siglt í strand. Það staðfesti að þjóðir heimsins séu að takast á og séu þar með ósammála mati Önnu Katrínar um að nýsjálenska leiðin sé þeim fær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×