Erlent

Fresta stofnun sjálfsstjórnarsvæða um eitt og hálft ár

Baráttan í Írak er að breytast úr baráttu gegn veru erlends herliðs í landinu í valdabaráttu innlendra stjórnmálamanna innbyrðis. Þetta segir George Casey, yfirhershöfðingi Bandaríkjamanna í Írak.
Baráttan í Írak er að breytast úr baráttu gegn veru erlends herliðs í landinu í valdabaráttu innlendra stjórnmálamanna innbyrðis. Þetta segir George Casey, yfirhershöfðingi Bandaríkjamanna í Írak. MYND/AP

Íraskir stjórnmálaflokkar hafa samþykkt að fresta stofnun sjálfsstjórnarsvæða í landinu um minnst 18 mánuði. Málefnið hefur ýtt undir ofbeldi í landinu að sögn þingmanna. Stjórnarskrárnefnd verður skipuð á morgun til þess að endurskoða ýmis ákvæði stjórnarskrárinnar að kröfu súnnímúslima sem eru í minnihluta í landinu.

Sjíamúslimar kröfðust þess að stofnuð yrðu sjálfsstjórnarsvæði í landinu en féllust á það að slíkt myndi ekki eiga sér stað í minnst eitt og hálft ár. Einn stærsti stjórnmálaflokkur sjíamúslima stefnir á stofnun stórs sjálfsstjórnarsvæðis í hinum olíuauðuga suðurhluta landsins. Súnnímúslimar óttast að þetta muni hindra aðgang þeirra að olíu sem er stór þáttur í efnahag landsins.

Samkomulag um frestun sjálfstjórnarsvæðanna gengur út á að haldið verði áfram að ræða frumvarpið sem heimili stofnun slíkra svæða en að það taki ekki gildi fyrr en einu og hálfu ári eftir að það hefur verið samþykkt í þinginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×