Innlent

Megum ekki missa ferðamannahagnaðinn úr landi

Forstöðumaður Ferðamálaseturs Íslands segir að sífelld fjölgun ferðamanna og aukin ítök stórra erlendra ferðaskrifstofa geti leitt til lækkunar launa í ferðaþjónustu og að skýra stefnumörkun þurfi til þess að hagnaðurinn hverfi ekki úr landi.

Edward Huijben, forstöðumaður setursins, segir reynslu Spánverja vera eitt skýrasta dæmið um það hvernig massaferðamennska getur verið fátæktargildra fyrir heimamenn. Þar skipuleggja stórar alþjóðlegar ferðaskrifstofur ferðirnar og alþjóðlegar hótelkeðjur eiga stærstu gististaðina og allt sem er eftir fyrir heimamenn eru láglaunastörf í veitingasölu og gistiþjónustu. Því sé ekki eingöngu gleðiefni þó að fjöldi ferðamanna aukist ár frá ári.

Edward segir þetta ýkta mynd en að þó sé þegar farið að örla á þessari þróun hér á landi. Utan Reykjavíkur og Akureyrar gegni erlent vinnuafl nú mörgum störfum á gististöðum og ferðaþjónustu almennt, þar sem Íslendingarnir vilji ekki taka að sér þessi störf.

Hann segir einnig að stórar ferðaskrifstofur séu nú þegar farnar að hafa áhrif á ferðaþjónustumarkaðinn á Íslandi. Þær pressi niður verðið sem hafi þau áhrif að laun lækki enn frekar í geiranum. Því verði að vinna skýra stefnu í ferðaþjónustu á Íslandi með það að markmiði að hagnaður af ferðamannastraumi verði eftir hér á landi en renni ekki allur í sjóði erlendra ferðarisa. Þannig nefnir hann sem dæmi að hægt sé að setja það sem skilyrði að ferðaþjónusta sé að mestu leyti í eigu heimamanna og að hún sé einnig á þeirra forsendum en ekki í óþökk heimamanna.

Hann bætir því þó við að langtímaáhrif af ferðaþjónustu á Íslandi hafi ekki verið rannsökuð sem skyldi og vonast til þess að úr því fáist bætt á næstu árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×