Peter Hill-Wood, stjórnarformaður Arsenal, lét í það skína í viðtali við Sky-sjónvarpsstöðina í dag að hugsanlega væri enski landsliðsbakvörðurinn Ashley Cole á leið frá félaginu. Cole lét stjórn Arsenal hafa það óþvegið í nýútkominni ævisögu sinni og talið er að grunnt sé á því góða milli hans og forráðamanna félagsins. Cole hefur lengi verið orðaður sterklega við Englandsmeistara Chelsea.
Hill-Wood hefur fram að þessu lítið viljað tjá sig um málið en í dag sagði hann; "Ég vil helst ekki ræða mál Cole núna, en ég hef grun um að eitthvað sé í gangi," sagði hann og bætti við að Arsene Wenger hefði orðað það við stjórnina á fundi nýverið að hann hefði áhuga á að kaupa nokkra leikmenn, en vildi lítið gefa upp um það hverjir þeir væru.