Innlent

Fellur úr gildi á miðnætti

Samkeppniseftirlitið álítur að samkeppni geti þrifist á leigubílamarkaði. Verðlagning eigi ekki að vera verkefni stofnunarinnar. Leigubílstjórar eru þó ósáttir við afnám hámarksölutaxta sem tekur gildi á morgun.

Útlit er fyrir að gjaldskrá leigubíla verði gefin frjáls á morgun. Samkeppnisstofnun ákvað í febrúar að afnema hámarksökutaxta leigubíla. Ákvörðuninni var áfrýjað en áfrýjunarnefnd komst að sömu niðurstöðu. Gildistöku úrskurðarins var þó frestað um tvo mánuði en hann á að taka gildi á morgun. Fulltrúar leigubílstjóra hafa mótmælt niðurstöðu samkeppnisstofnunar á þeim forsendum að hún skaði hagsmuni neytenda og vísa þeir í reynslu nágrannalandanna því til sönnunar.

Samkeppniseftirlitið hefur hingað til sett leigubílastöðvum hámarksökutaxta. Guðmundur Sigurðsson, aðstoðarforstjóri Samkeppniseftirlitsins, segir að meginástæða ákvörðunarinnar hafi verið að verðlagning þjónustu hafi verið álitin óeðlilegt verkefni fyrir Samkeppniseftirlitið. Markaður leigubílastöðva hafi verið metinn þannig að þar ætti að geta þrifist samkeppni. Hann bendir þó á að enn eru ýmis höft á frjálsa samkeppni sem koma til af lögum um leigubifreiðir. Í umsögn Samkeppniseftirlitsins um þau lög árið 2001 kom fram gagnrýni á t.d. lögbundnar fjöldatakmarkanir leigubíla á Stór-Reykjavíkursvæðinu.

Að sögn Guðmundar hafa leigubílastöðvar þó áfram möguleika á að setja sínum bílstjórum opinbera hámarkstaxta. Hægt sé að sækja sérstaklega um tilheyrandi undanþágu frá Samkeppniseftirlitinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×