Innlent

Stjórnvöld ætla að veita 20 milljónum til Rauða krossins

MYND/VÍSIR

Stjórnvöld ætla að veita 20 milljónum króna til alnæmisverkefna Rauða krossins og Rauða hálfmánans í sunnanverðri Afríku. Framlagið nemur samtals um 320.000 bandaríkjadollurum og verða peningarnir greiddir út í fjórum jöfnum greiðslum á árunum 2006-2009.

Ríkisstjórnin og Rauði kross Íslands lögðu fram áheit um samvinnu um stuðning við alnæmissjúka á 28. alþjóðaráðstefnu Rauða krossins og Rauða hálfmánans og ríkja sem eru aðilar að Genfarsamningunum. Tilkynnt var um þetta framlag ríkisstjórnarinnar á ráðherrafundi Sameinuðu þjóðanna um alnæmi sem haldinn var í New York dagana 1.-2. júní s.l.

Í fréttatilkynningu er greint frá því að Rauði krossinn fagni mjög þessum stuðningi ríkisstjórnarinnar.

Alnæmi er einn helsti ógnvaldur íbúa í löndunum sunnan Sahara, þar sem hlutfall smitaðra meðal fullorðinna er um 25-30% og jafnvel enn hærra í sumum löndum. Rauði kross Íslands hefur síðan árið 2000 stutt Rauða krossfélögin í sunnanverðri Afríku í glímunni við þennan vágest, bæði í samvinnu við Alþjóðasamband Rauða krossins, landsfélög Rauða krossins í Suður Afríku, Malaví og Mósambík og Þróunarsamvinnustofnun Íslands.

Um tuttugu og fimm ár frá því að alnæmisveiran greindist fyrst en síðan þá hafa um 25 milljónir manna látist af völdum sjúkdómsins. Þessi vágestur, sem alnæmi er, hefur grafið undan bjargráðum Afríkuríkja og því hefur dregið úr getu samfélaganna til að fást við vandann.

Rauði krossinn hefur um árabil unnið að alnæmisverkefnum í álfunni en verkefni hans snúa einkum að aðhlynningu, forvörnum, stuðningi við munaðarlaus börn og starfi sem miða gegn fordómum.

Í fréttatilkynningu Rauða Krossins er greint frá því að fjöldi smitaðra eygi nú von um að halda sjúkdómnum í skefjum vegna framboðs á ódýrum alnæmislyfjum auk þess sem bent er á að framlagið skapi færi á að halda alnæmisfaraldrinum í skefjum og draga úr nýsmitum.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×