Innlent

Stjórnvöld hafa ekki sinnt málefnum aldraðra

Stefán Ólafsson, prófessor, er frummælandi á fundinum í kvöld.
Stefán Ólafsson, prófessor, er frummælandi á fundinum í kvöld. MYND/Gunnar V. Andrésson

Samtök eldri borgara boða til þjóðfundar um málefni sín í Háskólabíói í kvöld. Stefán Ólafsson, prófessor, mun birta niðurstöður rannsóknar sem sýnir að eldri borgarar hafa dregist aftur úr í kjörum og einnig verður gerður samanburður við kjör eldri borgara á Norðurlöndunum.

Samtök eldri borgara hafa vakið athygli á kjörum sínum í aðdragana sveitarstjórnarkosninganna sem fram fara í næstu viku. Á þjóðfundi sem samtökin boða til í Háskólabíói í kvöld, gefst fólki tækifæri til að spyrja formenn stjórnmálaflokkanna og sveitarstjórnarfólk út úr um stefnu þeirra í þessum málaflokki, sem er vistaður bæði hjá ríki og sveitarfélögum.

Á fundinum flytur Stefán Ólafsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, erindi sem hann kallar "Lífskjör eldri borgara", og ef að líkum lætur eiga niðurstöður hans eftir að valda heitum umræðum eins og fyrri niðurstöður hans um kjör þeirra lægst launuðu. Þá mótmæltu ráðamenn niðurstöðum hans og sökuðu hann jafnvel um að fara vísvitandi með rangt mál.

Að loknu erindi Stefáns verða pallborðsumræður. Formönnum stjórnmálaflokkanna og sveitarstjórnaranna hefur verið boðið á pallborðið. Stefán segir að kjör lágtekjufólks hafi dregist afturúr meðaltekjum síðan 1995 og skattkjör aldraðra hafi versnað á þessu tímabili. Stjórnvöld á Íslandi hafi ekki sýnt málefnum aldraðra nógu mikinn áhuga.

Hið nýstofnaða Aðstandendafélag aldraðra, AFA, stendur fyrir Þjóðfundinum sem hefst klukkan átta í Háskólabíói.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×