Innlent

Framkvæmdir við álver í Helguvík gætu hafist á næsta ári

Stefnt er að undirritun rammasamkomulags um álver í Helguvík síðar í þessum mánuði og gætu framkvæmdir hafist á næsta ári. Orkuveita Reykjavíkur telur sig geta útvegað næga raforku til að álverið geti tekið til starfa árið 2010.

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur markaði þá stefnu fyrir rúmum mánuði að stefna að raforkusölu til álvers í Helguvík og fól forstjóra að kanna hvaða möguleika fyrirtækið hefði í því sambandi. Nú liggur fyrir niðurstaða.

Guðmundur Þóroddsson, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, segir að menn hafi verið skoða möguleika á Heillisheiði til að útvega 100 megavött til Helguvíkur. Best væri að koma álverinu í gagnið í lok árs 2010 sem þýðir að framkvæmdir gætu byrjað á næsta ári. Menn séu vongóðir um að það takist.

Hitaveita Suðurnesja kæmi einnig að raforkusölu til Norðuráls og segir Júlíus Jónsson, forstjóri Hitaveitunnar, að hún muni getað útvegað rúmlega 100 megavött. Þetta þýðir að fundin er næg raforka sem dugar til 120 þúsund tonna álframleiðslu í Helguvík en það yrði stærð fyrri áfanga 240 þúsund tonna álvers.

Aðilar eru nú að forma rammasamkomulag um framhald málsins og er stefnt að því að það verði undirritað eftir tvær til þrjár vikur.

Guðmundur segir margt ennþá óklárt. Eftir sé að vinna umhverfismat, bæði fyrir álverið og tengdar virkjanir. Útlínur verkefnisins muni þó skýrast innan fárra vikna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×