Innlent

Vegurinn um Þrengslin lýstur upp

Orkuveita Reykjavíkur
Orkuveita Reykjavíkur MYND/Róbert

Vonast er til að vegurinn um Þrengslin verði upplýstur í kringum næstu áramót. Stjórnarformaður Orkuveitunnar segir þá hafa boðið Vegagerðinni að taka þátt í að lýsa einnig upp Hellisheiðina.

Sveitarfélagið Ölfuss og Orkuveita Reykjavíkur hafa gert með sér samkomulag sem meðal annars felur í sér að Orkuveitan sér um að lýsa upp veginn um Þrengslin. Orkuveitan er með víðtækar framkvæmdir á svæðinu en nú er unnið að gerð Hellisheiðarvirkjunar. Fjöldi íbúa í Þorlákshöfn keyrir fram og til baka í vinnu á höfuðborgarsvæðinu og hefur lýsingin mikil áhrif fyrir þá. Lýsingin verður svipuð og á Reykjanesbrautinni það er ljósastaurar öðru meginn við veginn. Búist er við því að framkvæmdirnar hefjist síðar á árinu.

Alfreð Þorsteinsson, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjarvíkur, telur að verkefninu gæti lokið á árinu ef að tilskilin leyfi fást. En Alfreð býst við að Hellisheiðin komi til með að verða lýst í framhaldinu. Hann segir þá hafa rætt við Vegagerðina um málið og boðist til að lána þeim fé til verkefnisins eða hjálpa þeim að finna leið til að gera þetta að veruleika.

Hann segir undirtektirnar þar á bæ þó dræmar en þetta sé ekki á núgildandi samgönguáætlun. Alfreð telur þó að um leið og Þrengslin verði lýst upp fari yfirmenn Vegagerðarinnar að huga að lýsingu á Hellisheiðinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×