Innlent

Economist stendur fyrir hringborðsumræðum um íslensk efnahagsmál

Breska fjármálatímaritið the Economist stendur fyrir hringborðsumræðum um íslensk efnahagsmál í Reykjavík í næsta mánuði. Innlendir og erlendir athafna- og stjórnmálamenn munu taka þátt í umræðunum. Rætt verður hvort umræðan um íslensk efnahagsmál endurspegli alvöru óveður eða storm í vatnsglasi. Hringborðið, eða ráðstefnan verður haldin á Nordica hótelinu hinn 15. maí næst komandi í samvinnu við Viðskiptaráð Íslands.

Ráðstefnudeild hins virta tímarits gengst árlega fyrir fjölda slíkra alþjóðlegra ráðstefna víða um heim sem þykja eftirsóknarverður vettvangur fyrir alþjóðlega fjárfesta og leiðtoga athafnalífsins. Þetta er hins vegar fyrsta ráðstefna Economist um íslenskt efnahagslíf. Þáttakendur verða stjórnmálaleiðtogar eins og Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, Árni Mathiesen, fjármálaráðherra og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar. En að auki munu erlendir fjármálasérfræðingar taka þátt í hringborðinu, undir stjórn Nenad Pacek, sem er framkvæmdastjóri Evrópumála hjá the Economist.

Erlendir þátttakendur verða Bernt Reitan, aðstoðarforstjóri Alcoa, Thomas Pickering, aðstoðarforstjóri The Boeing Company, Jurgen Höfling, forstjóri DHL Nordic, Sven Estwall, forstjóri Norður Evrópudeildar Visa Europe, Neil Prothero, ritstjóri Economist.

Íslensku þátttakendur hringborðsins verða, auk ráðherranna, Svafa Grönfeldt, aðstoðarforstjóri, Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri, Hannes Smárason, forstjóri, Halldór Kristjánsson, bankastjóri, Styrmir Gunnarsson, ritstjóri,  Jón Sigurðsson, forstjóri og Andrés Pétursson, formaður Evrópusamtakanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×