Innlent

Hlaupið í Skaftá það allra stærsta

Vatnamælingamaður Orkustofnunar segist aldrei hafa séð eins mikið vatn í Eldvatni við Ása og í dag. Hlaupið í Skaftá hefur að öllum líkindum náð hámarki, en það er einstakt að ýmsu leyti. Þrýstingurinn sem myndaðist í eystri Skaftárkatli virðist hafa verið meiri nú en í öðrum hlaupum sem gerði það að verkum að vatnið braut sér leið í gegnum ísmassan og nánast sprengdi hann. Við það dreifðist hlaupið á stærra svæði, var mjög ákaft og hljóp meðal annars í Tungnaá.

Mælar Orkustofnunar hafa ekki verið að virka sem skyldi en þó virðist sem hlaupið hafi náð hámarki en það hefur staðið í stað um nokkurn tíma en Snorri Sófaníusson, vatnamælingamaður hjá Orkustofnun fór að Skaftá í morgun og segir hann hlaupið með þeim allra stærstu í Skaftá. Að sögn Snorra Zóphóníussonar, vatnamælingamanns Orkustofnunnar, hefur hann aldrei séð eins mikið vatn í Eldvatni við Ása og í dag. Rennslið í vatninu sé samkvæmt fyrstu mælingum 620 rúmmetrar á sekúndu og enn eigi mikið vatn eftir að renna í vatnið

Hann áætlar að rennsli við Sveinstind sé um 1500 rúmmetrar á sekúndu en ekkert samband hefur náðst við mælana þar. Sem dæmi má taka að rennsli Þjórsár er um 360 rúmmetrar á sekúndu eða fjórum sinnum minna. Miðað við mælingar Snorra í dag gerir hann ráð fyrir að um 300 gígalítrar hafi runnið úr katlinum. Hlaupið mun að öllum líkindum ganga niður á næstu 12 tímum og þá eins snögglega og það hófst.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×