Innlent

Enn vex hlaupið í Skaftá

Hlaupið í Skaftá vex mjög hratt og er rennslið nú komið í tæpa 390 rúmmetra á sekúndu en búast má við að það fari í um 1400 rúmmetra þegar hlaupið nær hámarki í nótt eða fyrramálið. Rennslið hefur þrefaldast frá því hlaupið hófst í gærkvöldi.

Vatnshæðamælir hefur verið rekinn í Skaftá frá því árið 1955 og síðan mælar voru fyrst settir upp hefur komið hlaup í ánna nokkurn veginn árlega að meðaltali. Hlaupin hafa verið misstór eftir því hvort hlaupið hefur úr eystri eða vestari Skaftárkatli en katlarnir eru staðsettir á Vatnajökli, norð-vestan við Grímsvötn. En skoðum aðeins hvað er gerast undir jöklinum.

Varmi sem kemur úr kvikuhólfi í berggrunni jökulsins,á um það bil eins og hálfs kílómetra dýpi bræðir ísinn neðan frá og myndar stöðuvatn undir ísmassanum. Þegar vatnshæðin er orðin nógu mikil þá lyftir vatnið ísmassanum og vatnið hleypur undan jöklinum.

Hlaupsins varð fyrst vart um klukkan 6 í morgun og hefur verið í örum vexti í allan dag. Þar sem hlaupið er úr stærri katlinum, það er að segja þeim eystri þá er allt útlit fyrir að það verði enn stærra en búast má við að hlaupið nái hámarki í nótt eða fyrramálið. Síðast var hljóp Skaftá í ágúst í fyrra en þá úr vestari katlinum.

Samkvæmt mælum Vatnamælinga Orkustofnunar var rennslið í Eldvatni við Ása komið í tæpa 390 rúmmetra á sekúndu sem er litlu meira en rennsli Þjórsár. Til að átta sig á hversu mikill vöxtur þetta er þá er rétt að geta þess að rennslið í Eldvatni var rúm 125 rúmmetrar í gærmorgunn svo það hefur þrefaldast á síðusta sólarhring. Sérfræðingar í Skaftárhlaupum eiga allt eins von á því að rennslið í hlaupinu fari í 1.400 til 1.500 rúmmetra þegar það nær hámarki. Vatnshæð Skaftár við Kirkjubæjarklaustur er nú orðin rúmir 2 metrar sem þýðir að hún hefur hækkað um tæpa 80 sentimetra frá því í fyrradag. Hlaupið rennur niður í Skaftárósa og niður Kúðafljót til sjós og hafa Almannavarnir varað fólk við að vera á ferðinni nærri upptökunum vegna hættu á brennisteinsmengun

Fyrstu merki um eitrun af völdum brennisteinslofttegunda eru ógleði en brennisteinsvetni er afar sterkt eitur og jafnast alveg á við blásýru og því betra að fara varlega.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×